Fara í efni
Fréttir

Merktu Gyðjuna – 100 km hlaupaleiðina

Vaskir sjálfboðaliðar úr UFA Eyrarskokki hafa undanfarið merkt nýjustu hlaupaleiðina sem boðið verður upp á í fjallahlaupinu Súlur Vertical sem fram fer um verslunarmannahelgina. Ganga þurfti með þungar stikur og verkfæri nokkurra kílómetra leið yfir Belgsárfjall.

Fjallahlaupið Súlur Vertical hefur fest sig í sessi sem eitt vinsælasta utanvegahlaup landsins. Undanfarin ár hafa þátttakendur getað valið á milli þriggja hlaupaleiða, frá 19 km og upp í 43 km þar sem hlaupið er í bakgarði Akureyringa og upp á fjöllin í Glerárdal.

Þessar hlaupaleiðir hafa nú fengið nöfnin Fálkinn, Súlur og Tröllið og í ár bætist við ný hlaupaleið, Gyðjan, sem teygir sig yfir í næstu sýslu og er aðeins á færi þeirra allra hörðustu.

  • Gyðjan er 100 kílómetra leið með 3.580 metra hækkun. Nafnið vísar til þess að hlaupið hefst við Goðafoss.

Frá Goðafossi er hlaupið yfir Belgsárfjall og niður í Fnjóskadal. Þar eru þræddir skógarstígar, hlaupið yfir gömlu bogabrúna við Vaglaskóg og svo haldið yfir í Eyjafjörð eftir Þingmannaleiðinni fornu upp úr Systragili og yfir Vaðlaheiði. Hlaupið er yfir Leirurnar og upp í Kjarnaskóg þar sem hlaupararnir sameinast keppendum í öðrum vegalendum. Hlaupið er upp á bæjarfjallið Súlur og áfram inn eftir fjallgarðinum og svo niður í gönguskálann Lamba á Glerárdal. Þaðan liggur leiðin niður á við alla leið niður í miðbæ Akureyrar þar sem markið er.

Félagar úr UFA Eyrarskokki sem unnu að því að merkja nýju hlaupaleiðina. Frá vinstri: Anton Örn Brynjarsson, Örvar Sigurgeirsson, Sigríður Einarsdóttir, Rannveig Oddsdóttir, Mínerva Björg Sverrisdóttir, Andri Teitsson, Auður Hörn Freysdóttir.

Hlauparar í þessu ofurhlaupi verða ræstir föstudagskvöldið 4. ágúst og hlaupa alla nóttina en miðað er við að keppendur geti lokið hlaupinu á 22 klukkutímum. Keppendur í öðrum vegalengdum verða ræstir í Kjarnaskógi að morgni laugardags og búast má við mikilli veislu í miðbænum þegar keppendur fara að tínast í mark upp úr hádegi laugardaginn 5. ágúst.

Innviðir sem nýtast ekki bara hlaupurum

Undanfarna daga hafa sjálfboðaliðar úr UFA Eyrarskokki unnið að því að merkja þessa nýju hlaupaleið í samvinnu við heimamenn og landeigendur. Skógræktin á Vöglum útvegaði stikurnar sem hlaupararnir gengu svo með á bakinu yfir Belgsárfjall og ráku niður. Í samvinnu við skógræktina hefur líka verið opnuð leið í gegnum skóginn Fnjóskadalsmegin.

Þetta er ekki fyrsta framkvæmdin sem hlauparar í UFA Eyrarskokki hafa ráðast í á undanförnum árum í tengslum við Súlur Vertical. Má þar nefna brúarsmíði á Glerárdal og merkingar – sjá hér. Þannig hafa orðið til skemmtilegar göngu- og hlaupaleiðir sem nýtast ekki aðeins keppendum í hlaupinu heldur öllum þeim sem vilja njóta hreyfingar og útivistar í nágrenni Akureyrar. Hver veit nema leiðin yfir Belgsárfjall verði vinsæl gönguleið í framtíðinni?

Skráning í fullum gangi

Enn er hægt að skrá sig í fjallahlaupið Súlur Vertical. Allar upplýsingar um hlaupaleiðir og skráningu má nálgast á heimasíðu hlaupsins.