Fara í efni
Mannlíf

Meistari mannlegra samskipta – eða ekki

Mynd: Golli

Gunnar Hansson leikari og útvarpsmaður hefur hátt í tvo áratugi brugðið sér reglulega í hlutverk Frímanns nokkurs Gunnarssonar, óborganlegs karakters, monthana og snobbara af bestu gerð, sem kitlar hláturtaugar fjöldans – en reyndar læðist stundum að manni sá grunur að sumum þyki Frímann óþolandi. Á skemmtilegan hátt samt!

Sex þáttaraðir í sjónvarpi eru að baki og nú hefur Frímann haslað sér völl á sviði. Hann er ekki mikið fyrir ferðalög innanlands, svo vægt sé til orða tekið; lítur í raun niður á fólk úti á landi og vill helst ekki fara langt út fyrir borgarmörkin en brýtur nú odd af oflæti sínu því sýning er framundan í Hofi. Þeir Gunnar stíga þar á svið laugardagskvöldið 2. nóvember.

„Innantómur fjölmiðlamaður sem er uppfullur af sjálfum sér, finnst hann klárari en aðrir en er það alls ekki, hlustar ekki sérstaklega vel og langar alltaf til að vera gáfaðasti maðurinn í því herbergi sem hann er – en er það líklega aldrei,“ segir Gunnar Hansson þegar hann lýsir Frímanni í fáeinum orðum í samtali við Akureyri.net.

Neisti varð að báli

„Frímann er kominn langt út fyrir þægindarammann þegar hann fer svona langt út fyrir höfuðborgarsvæðið. Hann lærði í Englandi og er mikill Englands snobbari; talar um London sem mitt menningarlega móðurlíf. En hann segist reyndar óhræddur við að hitta fólkið úti á landi því hann sé meistari mannlegra samskipta og eigi auðvelt að koma niður á þeirra plan. Hann kunni alveg að tala niður til þeirra!“

Grunnurinn að Frímanni varð til í sjónvarpsauglýsingum sem Gunnar gerði ásamt Ragnari bróður sínum fyrir golfverslunina Nevada Bob um aldamótin. Þeir bjuggu þá til „furðulegan karakter sem var forveri Frímanns,“ segir Gunnar.

Eftir að leikararnir Gunnar, Halldór Gylfason og Friðrik Friðriksson gerðu prufuþátt fyrir sjónvarpsstöðina Skjá 1, sem þá var og hét, grínþátt um þrjá fréttamenn í mismunandi hlutverkum fæddist Frímann ef svo má segja. Hann var í mjúkum málum, menningu og listum, „og það var eitthvað í þeim karakter sem okkur leist svo vel á að við ákváðum að gera þátt um hann.“

Neistinn sem þar kviknaði varð brátt að báli því sex sjónvarpsþáttaraðir hafa verið gerðar sem fyrr segir. Ragnar bróðir Gunnars hefur leikstýrt öllum þáttunum og bjó persónu Frímanns til ásamt Gunnari. Þeir hófust handa við upptökur haustið 2005, fyrsti þáttur var frumsýndur í mars 2006 og allar götur síðan hefur Frímann fylgt Gunnar eins og skuggi – eða öfugt.

Gerðum grín að pabba

Líf Frímanns sjálfs var í brennidepli í einni þáttaröðinni en annars gera bræðurnir grín að viðtals- og heimildaþáttum í sjónvarpi og Gunnar viðurkennir að þeir hafi ekki leitað langt yfir skammt í þeim efnum fyrst í stað. „Upphaflega gerðum við grín að pabba okkar sem gerði marga sjónvarpsþætti í gamla daga. Ég verð að viðurkenna að við höfðum pínu gaman af því að gera grína að honum.“

Hans Kristján Árnason, faðir Gunnars og Ragnars, var einn stofnenda Stöðvar 2 og gerði fjölda þátt í árdaga stöðvarinnar, meðal annars eftirminnilega viðtalsþætti.

Tvær fyrstu þáttaraðirnar með Frímanni voru sýndar á sjónvarsstöðinni Skjá 1 og þriðja á Stöð 2. „Í þeirri seríu fór hann um öll Norðurlöndin og rannsakaði húmor, sem var ömurleg hugmynd en þess vegna fannst okkur hún svo góð! Hann er líklega versti maður í heimi í það verkefni.“

Síðustu þrjár þáttaraðir hafa verið sýndar á RÚV en Gunnar segir fleiri ekki í bígerð. Þá bræður hafi langað að gera eina gamansýningu með furðufuglinum Frímanni og látið vaða. Fjórar sýningar voru í Bæjarbíói í Hafnarfirði í febrúar og mars. „Við renndum blint í sjóinn því ég hafði ekki hugmynd um hver áhuginn yrði, en það seldist upp, hver einasti miði. Ég var varkár og náði því ekki að bóka meira þá en í haust eru aftur þrjár sýningar í Bæjarbíó og eitt kvöld á Akureyri.

Uppfræðari og bjargvættur

„Á sýningunni er Frímann með uppistand þar sem hann leikur sér aðeins með áhorfendum,“ segir Gunnar. „Frímann hefur lagt á sig mikla rannsóknarvinnu vegna uppistandsins fyrir hlé í sýningunni, til þess að finna út hvers kyns húmor höfðar til fjöldans. Hann veit ekkert um menntunarstig fólksins í salnum, það er stutt í menntahrokann en hann hefur ekki mikið til að bakka það upp. Það er ekkert gáfulegt við hann nema að hann vill vera gáfaður – en er það ekki. Hann ætlar sér að breyta lífi fólks, lítur alltaf á sig sem uppfræðara og bjargvætt, sem er líklega ekki rétt hjá honum, en Frímann er heldur betur með nægan fróðleik að miðla ... “

Tónlistarmaðurinn Steingrímur Karl Teague úr hljómsveitinni Moses Hightower er með Frímanni í sýningunni og sá síðarnefndi syngur mörg af uppáhaldslögunum sínum, sérkennileg lög þannig að lagavalið kemur líklega koma mörgum á óvart, segir Gunnar. „Steingrímur Karl er einn besti söngvari landsins, stórkostlegar tónlistarmaður, en Frímann hefur auðvitað ekki hugmynd um það og óhjákvæmlega verða árekstrar á sviðinu.“

Eftir hlé flytur Frímann svo fyrirlesturinn 11 spor - Til hamingju „þar sem hann eys úr eigin viskubrunni um leyndarmál lífsins og hvað hefur gert hann að þeim manni sem hann er í dag,“ segir Gunnar.

Hann er gjarnan spurður hvort Frímann sé byggður á einhverjum sérstökum og kemur ekki á óvart. „Jú, ég fæ mjög gjarnan þá spurningu og margir eru nefndir. Er hann byggður á þessum eða þessum eða þessum? Oft get ég sagt já, því Frímann er byggður á mörgum.“

Frímann hefur þróast í gegnum árin. „Það stóð aldrei til að gera þetta svona lengi en sífellt verða til nýjar hugmyndir svo ekki er annað hægt en að halda áfram. Það er einstakt að fá tækifæri til að þróa karakter í 18 ár og finna á honum nýjar hliðar sem koma fólki á óvart. Á svona löngum tíma hefur orðið til mikil baksaga sem enginn veit um en í sýningunni glittir í hana og þá skýrist að einhverju leyti hvers vegna Frímann er eins og hann er.“

Meiri Frímann en Frímann

Gunnar segist hafa mjög gaman af Frímanni. „Ég myndi ekki gera þetta svona lengi nema hafa gaman að þessu. Það er gaman að setja á sig kolluna og gleraugun og láta svo bara vaða! Allir fá skrýtnar hugmyndir, flestir eru skynsamir og gera ekkert með þær en ekki Frímann, hann er hvatvís og lætur allt flakka og það er sálarhreinsandi að stíga stundum inn í þannig persónu.“

Leikarinn segist stundum velta því fyrir sér hvort hann láti karakterinn ganga of langt en „svo sé ég oft eða heyri fólk tala þannig að það er meiri Frímann en Frímann sjálfur!“ Alltaf sé hægt að hlæja með Frímanni því enginn á neitt undir honum en þegar áhrifafólk í heiminum tali eins og þessi furðulegi karakter sem Gunnar hefur þróað hátt í tvo áratugi sé það hins vegar alls ekkert gamanmál. „En það er mjög gaman að láta hann vaða fram með svona hroka. Hann ber ekkert skynbragð á þetta sjálfur og húmorinn er alltaf á kostnað hans sjálfs – hann er alltaf fíflið.“