Fara í efni
Pistlar

Máttur persónuleikans

Persónuleikar fólks eru margbreytilegir og koma fram í ólíkum eiginleikum, viðbrögðum og hegðun. Þessir þættir hafa mikil áhrif á líf og líðan okkar allra og það mætti ganga svo langt að telja persónuleika mannskepnunnar til máttugustu afla sem móta mannlífið á jörðinni.

Margt er enn óljóst eða bara alls ekkert vitað um hvað varðar mótun persónuleikans en á einfaldasta máta má segja þetta: Við fæðumst með fyrirfram ákveðna persónuþætti sem oft eru líkir þeim sem eru hjá forfeðrunum eða stundum alls ekki. Þessir þættir taka strax að mótast í frumbernsku og styrkjast eða veikjast eftir því sem við þroskumst undir áhrifum í uppeldi, námi, samskiptum eða af fyrirmyndum. Unglingsárin eru tími endurstillingar og umbrota sjálfstæðis en eftir það er persónuleikinn fullmótaður. Fínstillingar geta farið fram síðar á lífsleiðinni með aukinni menntun, lærdómi um lífið, trúariðkun og löngun til að þroskast andlega. Samt sýna flóknar sálfræðirannsóknir að persónuleikinn er furðu lítt breytanlegur yfir ævina.

Að hjóla í manninn

Stundum er sagt um okkur Íslendinga að okkur hætti til að gera persónuna að umræðuefni í stað þess að halda uppi rökum eða ræða málefnalega um viðfangsefnið. Þetta er alveg rétt en um leið erfitt að gera þetta ekki. Eiginlega alveg ómögulegt þar sem máttur persónuleikans er svo mikill. Það hvernig við erum gerð, lítum út, bregðumst við og hegðum okkur hefur ótvírætt mikil áhrif. Sumir eru baráttuglaðir og yfirgangssamir og taka mikið pláss fullir þvermóðsku. Aðrir eru sjálfumglaðir og stýrilátir en móðgunargjarnir. Svo eru viðbrögð óteljandi í fjölbreytni sinni.

Það er mikil ráðgáta hvernig við fæðumst með ákveðna persónuþætti og þróum síðan með okkur venjur og mynstur en sennilega er heppilegast fyrir afkomu okkar allra að í mannhafinu sé fjölbreytileiki í eiginleikum og perónugerð. Einn ýtir áfram af áræðni en annar dregur úr með gætni.

Þannig skiptir það miklu máli fyrir framgang og líðan hvers og eins hvernig persónuleikinn er og ekki síður fyrir samskipti af öllum gerðum, hvort sem um er að ræða vellukkað hjónaband tveggja einstaklinga eða hatrammar stríðandi fylkingar.

Það er athyglisvert að við erum sjálf mjög fær í að greina kosti og galla hvers annars. Fyrstu kynni gefa okkur tilfinningu fyrir manngerð þess er við hittum og oft er það mat furðu rétt. Síðan koma dýpri tengsl og þekking á eiginleikum og hegðun vina og samstarfsfólks. Og þegar við eldumst verður mat okkar á persónugerð enn öruggara og byggt á reynslu og mannþekkingu. Og svo ástin. Að tengjast annarri persónu á djúpstæðan hátt eða þegar við veljum okkur maka. Þá fer fram afar flókið og alveg sérstakt mat á persónugerð þess sem við höfum dregist að og orðið hrifin af. Og á þeim tíma þegar þetta gerist erum við oft ung og óreynd. Og hvernig gerist þetta eiginlega? Í heila okkar býr háþróað kerfi sem gerir okkur að snillingum í að greina persónugerð og hegðun hvers annars. Þetta er kerfi sérstakra taugafruma sem kallast spegilfrumur (Mirror cells) sem hafa það sérhæfa hlutverk að spegla eða greina það sem gerist þegar við hittum aðra manneskju og tengja það bæði vitund og undirvitund. Við heyrum og sjáum og myndum okkur skoðun á svipstundu og tengjum minni og þekkingu. Og undir niðri fáum við tilfinningar eins og ótta og hrifningu og allt þar á milli. Þessi starfsemi heilans, sem hér var lýst þegar spegilfrumurnar starfa með öðrum ólíkum starfsstöðvum heilans, mætti nefna áhættu- og tilfinningagreiningu persónuleikans. Þessi heilastarfsemi tengist svo náið úttaugakerfinu (við roðnum feimnislega eða skjálfum af ótta) og hormónastarfsemi líkamans (streitu- og hvíldarhormónin efla okkur gegn álagi og kynhormónin vita allir hvað gera). Ný og spennandi þekking er að koma fram um hvernig einmitt samspil þessara kerfa heilans, úttauganna og hormónanna, hefur mikla þýðingu við greiningu og mat á persónuleika náungans.

Greiningargetu okkar má efla enn frekar með reynslu og sérhæfðri þjálfun. Starfsstéttir eins og kennarar, hjúkrunarfræðingar, geðlæknar, prestar og sálfræðingar öðlast í starfsþjálfun sinni sérstök verkfæri til greininga persónuleika sem nýtist þeim mjög vel í starfi.

Persónuleikagreining

Þegar geðlæknir greinir vanda sem leysa á úr fer alltaf fram sjúkdómsgreining. Fyrst eru einkenni um vanlíðan skoðuð, t.d. álagseinkenni, óöryggi, depurð, sveiflur og athyglisbrestur. Í nokkrum greiningaviðtölum eru athuguð merki um starfsemistruflanir eins og svefntruflanir, skerðingu á minni og einbeitingu eða geðrof. Metið er hverjar afleiðingar gætu verið eins og þreyta, framtaksleysi, skert álagsþol eða hindranir í starfs- og námsgetu og samskiptum.

En þar að auki er alltaf mikilvægt að rannsaka persónugerð hvers og eins því það hefur mikla þýðingu fyrir það hvernig meðferð er valin og hvernig samvinna og árangur verður. Þá koma oft fram frásagnir af óheppilegum hegðunar- og hugsanamynstrum sem valda vandræðum og vanlíðan.

Greiningin fer fram í viðtölunum og mikilsverðar upplýsingar um persónuleikann felast í sögu einstaklingsins, hvernig líf hans hefur spunnist og hvernig hann eða hún hefur tekið á málum sínum og annarra. Stundum er líka stuðst við sérstaka spurningalista sem meta dýpra einstaka persónuþætti, varnarhætti og mynstur í hugsun og hegðun. Notuð eru viðmið tveggja greiningakerfa og eru þau reglulega aðlöguð nýjustu þekkingu og reynslu í fræðunum. Annað kerfið er evrópskt og kallast ICD-11 en hitt er amerískt og nefnist DSM 5. Fyrra kerfið byggir á orsökum sjúkdóma en í hinu síðara er lögð áhersla á lýsingu og skilgreiningu sjúkdóma og sjúkdómaflokka. Mikil vinna hefur verið lögð í að gera þessi greiningakerfi sem best úr garði og samhæfa þau. Einn flokkur þar hefur vakið miklar umræður en það er kaflinn um persónuleikaraskanir því það er flókið að rannsaka þær og umdeilt hvort líta beri á þær sem ýktar eða sérstaklega sterkar persónugerðir fremur en sjúkdóma. En þegar persónugerð einstaklings veldur vanlíðan hjá honum eða öðrum, truflar samskipti og eitrar líf hans og annarra þá líta flestir fræðimenn svo á að um sjúkleg fyrirbæri sé að ræða. Margir þeirra sem fá greiningu um persónuleikaröskun hafa ekki áttað sig á því að þeir beri þessa sjúklegu þætti í sér. Þeir leita oft til læknis út af allt öðru, eða gera það alls ekki og hafa þá ekki veikindatilfinningu. Þegar þessi mál eru svo kynnt fyrir þeim reynist þeim nauðsynleg sjálfsskoðun oft erfið og þeir eiga erfitt með að auka innsæi og vinna úr málum án aðstoðar reynds meðferðaraðila. Minna má á að sjúkdómsgreiningarnar eru í augum geðlæknisins ekki stimpill sjúklingunum til niðrunar, heldur vísindalegt og háþróað verkfæri til að skýra og skilgreina betur flókin fyrirbæri og auka þannig öryggi og árangur meðferðarinnar.

Ýmsar tegundir persónuleikaraskana eru til og þeim flokkum má auðveldlega fletta upp á netinu en það sem er sameiginlegt þeim öllum er að einstaklingarnir lifa frekar stormasömu lífi, eiga erfitt með að halda út í námi eða starfi eða að ná dýpt í samböndum. Og þeim líður flestum illa og finna sig ekki í neinu og eru oft í uppgjöf eða jafnvel lífshættu. Hér er dregin upp sterk mynd en margir eru með mildari einkenni og þeir sem eru nægilega vel gefnir til að læra af öðrum og hafa ekki leiðst út í neyslu, geta náð miklum árangri. Við þetta má bæta að sumir einstaklingar með persónuleikaröskun eru heppnir eða sniðugir í starfs- og makavali og ná mjög langt í lífinu. T.d. getur óeðlilega ósjálfstæður maður náð sér í ofurráðríka konu og sambandið gengur vel. Athyglissjúku konunni hentar vel að vera stöðugt prímadonnan og í sviðsljósinu, sérstaklega ef hún hefur að auki söng- eða leikhæfileika.

Sjálfmiðaðir prófessorar eru oft miklir vísindamenn og einbeittir og frjóir í eigin heimi rannsóknanna en vantar stundum upp á félagslega getu sem bitnar á fræðslunni. Siðblindi einstaklingurinn hefur vissa sérstöðu meðal þeirra sem hafa persónuleikaraskanir þar sem oftast líður honum sjálfum ekki illa þó aðrir þjáist vegna gerða hans og framkomu.

Að lokum má segja að þær sterku myndir, sem dregnar eru upp af persónuleikaröskunum í greiningakerfunum og við verðum vitni að sjálf í fjölmiðlum eða samskiptum okkar við þá einstaklinga sem hafa ýktustu einkennin, geta verið hjálplegar. Við getum mátað okkur við þær, speglað eigin gerðir og hugsun í viðleitni okkar að verða besta útgáfan af okkur sjálfum. Við getum líka lagt okkur fram um að vera eins góð fyrirmynd fyrir aðra og mögulegt er.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00