Fara í efni
Íþróttir

Martha í goðsagnahöll handboltadeildar KA

Martha Hermannsdóttir eftir að hún var tekin inn í frægðarhöll handknattleiksdeildar KA um helgina. Myndir: Egill Bjarni Friðjónsson

Martha Hermannsdóttir, fyrrverandi handboltakona með KA/Þór, var um helgina tekin inn í goðsagnahöll handknattleiksdeildar KA. Það var gert fyrir leik KA/Þórs og Víkings og eftir leik var önnur gleðistund þegar heimakonur fengu afhentan bikar fyrir sigur í Grill66 deildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins.

Martha, sem var fyrirliði KA/Þórs þegar liðið var Íslands- og bikarmeistari 2021, er fyrsta konan sem kemst í höllina; fyrir voru 10 fyrrverandi leikmenn karlaliðs KA. Martha er leikjahæsti leikmaður í sögu KA/Þórs – hún tók þátt í 313 í deildar-, bikar- og Evrópuleikjum.

Mörthu plakatið afhjúpað fyrir leik KA/Þórs og Víkings á laugardaginn.

Það er Samherji sem heiðrar Mörthu Hermannsdóttur með þessum hætti. Fyrirkomulag goðsagnahallarinnar er þannig að fyrirtæki eða einstaklingar geta keypt goðsögn úr handboltastarfinu, og fá þar með merki sitt á strigann með myndinni af leikmanninum auk texta yfir hans helstu afrek með KA, að því er fram kom á vef félagsins á sínum tíma.

Ómetanlegt framlag

Í tilkynningu frá KA/Þór segir að auk þess að heiðra Mörthu muni Samherja jafnframt styrkja starf KA/Þórs og styðja við áframhaldandi uppbyggingu handboltans á Akureyri. „Martha Hermannsdóttir er eitt af stærstu nöfnum íslensks kvennahandbolta og hefur um árabil lagt ómetanlegt framlag til KA/Þór og framþróun handboltans hér á Norðurlandi, bæði innan sem utan vallar. Með þessum heiðri vill Samherji viðurkenna einstök afrek hennar og áhrif á íþróttina.“

Guðrún Linda Guðmundsdóttir og Klara Fanney Stefánsdóttir stjórnarmenn KA/Þórs ásamt Mörthu. Þær stöllur léku saman í yngri flokkum KA og með meistaraflokki KA/Þórs. 

„Við erum afar stolt af því að heiðra Mörthu fyrir hennar framúrskarandi framlag til handboltans og samfélagsins á Akureyri,“ segir Dagný Linda Kristjánsdóttir stjórnarmaður Samherja í tilkynningunni frá KA/Þór. „Jafnframt viljum við styðja áframhaldandi starf KA/Þór og leggja okkar af mörkum til að veita yngri flokkum félagsins góðar fyrirmyndir.“

Styrkur Samherja mun nýtast til að styrkja liðið í komandi baráttu þeirra í deild þeirra bestu á næsta ári, segir í tilkynningunni. „Við erum mjög þakklát Samherja fyrir þennan stuðning,“ segir Stefán Guðnason, formaður kvennaráðs KA/Þórs. „Það skiptir miklu máli að fyrirtæki í heimabyggð styðji við íþróttastarf líkt og okkar sem veitir ungum stelpum flottar fyrirmyndir sem auðvitað hefur margföld jákvæð áhrif á samfélagið.“

  • Fyrir í goðsagnahöll handboltadeildar KA voru eftirtaldir leikmenn: þeir Alfreð Gíslason, Arnór Atlason, Erlingur Kristjánsson, Guðjón Valur Sigurðsson, Jóhannes Gunnar Bjarnason, Patrekur Jóhannesson, Róbert Julian Duranona, Sverre Andreas Jakobsson og Valdimar Grímsson.