Fara í efni
Íþróttir

Markús Orri aftur Akureyrarmeistari

Markús Orri Óskarsson, nýbakaður Akureyrarmeistari, að tafli á Evrópumóti unglinga á Ítalíu í fyrra.

Markús Orri Óskarsson sigraði á 89. Skákþingi Akureyrar, sem lauk í gær, og varð þar með Akureyrarmeistari annað árið í röð.

Alls voru tefldar sjö umferðir á mótinu. Markús tapaði fyrstu skákinni, en beit þá í skjaldarrendur og vann næstu sex skákir og mótið með nokkrum yfirburðum. Markús, sem varð yngsti Akureyrarmeistari sögunnar með sigri sínum í fyrra, er stöðugt að bæta við sig í skákstyrk og - þekkingu og hefur nú verið valinn til að tefla fyrir Íslands hönd á Norðurlandamóti í skólaskák sem háð verður í Borgarnesi dagana 13.-16. febrúar næstkomandi.

Keppendur í meistaraflokki á Skákþingi Akureyrar voru 13 talsins. Keppni var mjög jöfn þótt Akureyrarmeistarinn hafi stungið aðra keppendur af undir lokin. Jafnaldri hans, Tobias Þórarinn Matharel, átti einnig gott mót og náði nú sínum besta árangri til þessa.

Lokastaða efstu manna:

  • Markús Orri Óskarsson 6 vinningar
  • Stefán G. Jónsson 4,5
  • Tobias Matharel 4,5
  • Sigurður Eiríksson 4
  • Smári Ólafsson 4
  • Eymundur Eymundsson 3,5
  • Sigþór Árni Sigurgeirsson 3,5

Meira um mótið á vef Skákfélags Akureyrar