Fara í efni
Fréttir

„Markmið hafa náðst“ í bílastæðamálunum

Bílastæðin milli Skipagötu og Glerárgötu í miðbænum á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Tekjur vegna gjaldskyldu á bílastæðum á Akureyri eru svipaðar og áætlað var og það markmið að jafna nýtingu á bílastæðum hefur náðst. Þetta kemur fram í svari Andra Teitssonar, formanns umhverfis- og mannvirkjaráðs, við fyrirspurn frá Akureyri.net.

Skilamat vegna innleiðingarinnar sem svo er kallað var lagt fram á fundi ráðsins fyrr í mánuðinum. Það er einfaldlega mat á verkefninu, farið yfir hver markmiðin voru, hvað var gert, hvað það kostaði og hvernig til tókst með framkvæmdina. En ítarlegri endurskoðun verður á dagskrá í sumar þegar núverandi fyrirkomulag hefur verið notað í heilt ár.

600 gjaldfrjáls stæði

Í málefnasamningi núverandi meirihluta bæjarstjórnar segir að farið verði yfir fyrirkomulag gjaldskyldu á bílastæðum í miðbænum og það endurmetið. Að sögn Andra verður farið yfir stöðuna í sumar þegar núverandi fyrirkomulag hefur verið í notkun í 12 mánuði. „Á þessu stigi er nú þegar ljóst að tekjur eru svipaðar og áætlað var og að það markmið að jafna nýtingu á bílastæðum hefur náðst,“ segir Andri og nefnir að núna sé nánast alltaf hægt að fá stæði á bestu stöðum.

Gjaldskyldan nær til um 440 stæða sem eru á besta stað í miðbænum en Andri bendir á að það séu rúmlega 600 gjaldfrjáls stæði á næstu grösum, flest þeirra eru við Hof og meðfram Strandgötu, og svo einnig meðfram Austurbrú og neðan við Samkomuhúsið.

Tekjurnar hafa tvöfaldast

Það sem helst hefur verið gagnrýnt við núverandi fyrirkomulag er að milliliðurinn, app-fyrirtækið í Reykjavík, fái fullmikið í sinn hlut og bæjarfélagið þá of lítið á móti. „Þetta er mögulega það sem mest óánægja var með,“ segir Andri, „enda varð hlutur appsins hátt hlutfall þegar greitt er fyrir stuttan tíma. Á móti hefur verið bent á að hugbúnaður kostar alltaf óhjákvæmilega eitthvað, og svo það að mögulegt er fyrir notendur að sleppa við app-kostnaðinn með því að greiða með greiðslukorti,“ segir Andri og á þar við búnað í staurunum við Skipagötu 12, við Landsbankann og við Oddagötu ofan við heilsugæslustöðina.

Aðspurður segir Andri að rekstur bílastæðasjóðsins standi undir sér og gott betur, hann skili að auki einhverjum fjármunum upp í rekstur stæðanna, þ.e. snjómokstur, viðhald og fleira. Þannig voru tekjur á árinu 2022 um 60 milljónir króna eða um það bil tvöfaldar frá því á dögum klukkukerfisins. Þó klukkustæðin væru vitaskuld gjaldfrjáls komu samt tekjur af fastleigustæðum, sektum og fleiru.

Kostnaður við innleiðingu á nýja kerfinu varð tæplega 30 milljónir króna, sem er lægra en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir.