Fara í efni
Íþróttir

María skoraði tvö í lokaumferðinni

Fortuna Sittard. María Gros er önnur frá hægri í fremri röð. Hildur Antonsdóttir og Lára Kristín Pedersen leika einnig með liðinu. Hildur er lengst til vinstri í aftrari röð, en Lára Kristín er ekki á myndinni. Mynd: Fortuna Sittard.

María Catharina Ólafsdóttir Gros skoraði tvö mörk fyrir Fortuna Sittard í lokaumferð hollensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu um helgina. Liðið endaði í 4. sæti deildarinnar, en tímabilinu er þó ekki lokið því fram undan eru að minnsta kosti tveir leikir, undanúrslitaleikur í einni bikarkeppni og úrslitaleikur í annarri.

María spilaði alla 22 leiki liðsins í deildinni í vetur, skoraði fimm mörk og átti tvær stoðsendingar. Fortuna Sittard hefur þó ekki lokið keppnistímabilinu því liðið er komið í úrslit KNVB bikarkeppninnar og í undanúrslit Eredivisie-bikarsins. Úrslitaleikur KNVB bikarkeppninnar fer fram mánudaginn 20. maí þegar þær mæta liði Ajax. Fortuna vann Excelsior í undanúrslitum, 5-0, en Ajax vann 2-1 sigur á Feyenoord. María hefur skorað fjögur mörk í tveimur leikjum í KNVB-bikarnum.

Í undanúrslitum Eredivisie-bikarsins mæta María og liðsfélagar hennar liði Twente, en Ajax og PSV eigast við í hinum undanúrslitaleiknum.

Óljóst er hvað tekur við hjá Maríu þegar samningur hennar við Fortuna Sittard rennur út. Hún stefnir á að komast til Svíþjóðar, en ekki einungis til að spila fótbolta heldur einnig í háskólanám. Þessi mál eru í vinnslu og munu skýrast á næstu dögum og vikum. Móðir Maríu, Anna Catharina Gros, er fædd og uppalin í Svíþjóð.