Fara í efni
Íþróttir

María samdi við Fortuna Sittard í Hollandi

María Catharina Ólafsdóttir Gros í treyju Fortuna Sittard í dag.

Knattspyrnukonan María Catharina Ólafsdóttir Gros hefur samið við hollenska úrvalsdeildarfélagið Fortuna Sittard. Félagið kom á fót kvennaliði fyrir yfirstandandi keppnistímabil og er það í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar, Eridivisie, að loknum 11 umferðum.

María Catharina, sem verður tvítug um næstu helgi, kom fyrst við sögu meistaraflokks Þórs/KA 2018, aðeins 15 ára gömul. Hún á að baki 66 meistaraflokksleiki.

„Aðstæðurnar hérna eru mjög flottar. Það er mikið jafnrétti á milli stelpnanna og strákanna. Það er séð mjög vel um mann og ég held að þetta sé rétta umhverfið fyrir mig til að verða betri leikmaður,“ sagði María Catharina eftir að hún skrifaði undir samning í Hollandi í dag.

María Catharina fór til Celtic í Skotlandi 2021 en kom heima á ný á síðasta ári og lék síðari hluta tímabilsins með Þór/KA. Markmiðið var að fara aftur utan í atvinnumennsku og hefur sá draumur nú ræst.

Fortuna Sittard sýndi Maríu áhuga á síðasta ári, þegar félagið var að koma saman kvennaliði, en hún kaus að ljúka tímabilinu með Þór/KA og líta svo í kringum sig í rólegheitum. Hún fór til Hollands á dögunum og skrifaði undir samning í dag, sem fyrr segir, eftir að hafa gengist undir læknisskoðun.

María verður ekki eina íslenska knattspyrnukonan hjá Fortuna Sittard því þar er nú þegar Hildur Antonsdóttir. Liðið er í þriðja sæti efstu deildar í Hollandi eins og áður sagði með 22 stig en Twente og Ajax eru bæði með 33 stig.

María með tilboð frá þremur erlendum liðum