Fara í efni
Fréttir

Margar keðjur og aldrei fleiri fallið á greiðslumati

Fasteignasalarnir Tryggvi á Eignaveri, Friðrik hjá FS fasteignum og Björn hjá Hvammi fóru yfir stöðuna á fasteignamarkaðnum á Akureyri.

Um 400 fasteignir eru nú til sölu á Akureyri. Að sögn fasteignasala í bænum er úrvalið ágætt en þó mættu fleiri íbúðir vera í boði fyrir fyrstu kaupendur sem eiga erfitt með að koma sér inn á markaðinn.

Akureyri.net fékk fasteignasalana Tryggva Gunnarsson hjá Eignaveri, Björn Davíðsson hjá Hvammi og Friðrik Sigþórsson hjá FS fasteignum til að rýna aðeins í stöðuna á fasteignamarkaðinum á Akureyri.

„Markaðurinn heilt yfir er bara fínn. Það eru margir á ferðinni og almennt góð sala. Hins vegar taka margar sölur lengri tíma en áður og mikið um keðjur sem geta tekið jafnvel tvo til fjóra mánuði að klárast,“ segir Björn og bæði Friðrik og Tryggvi taka undir það. Að þeirra sögn selst að meðaltali ein íbúð á Akureyri á dag, þá á heimamarkaði, ekki orlofsíbúðir.

  • Það er kallað keðja þegar ein fasteignaviðskipti eru háð því að af öðrum viðskiptum verði; þegar kauptilboð er gert með fyrirvara um að viðkomandi geti selt sína eign og jafnvel koll af kolli, því algengt er að margir séu í einni og sömu keðjunni hverju sinni.

Mynd: Þorgeir Baldursson

Beðið eftir breytingum

Árið hófst með krafti enda margir vongóðir á bjartari tíma, en salan datt niður í maí þegar kom í ljós að vextir væru ekki að fara að lækka eins og margir höfðu bundið vonir við. „Það eru margir sem vilja færa sig úr stað en halda að sér höndum vegna vaxta umhverfisins. Fólk er bara ekki tilbúið til þess að taka þátt í þessari vitleysu eða hreinlega getur það ekki, og er að bíða eftir breytingum,“ segir Tryggvi.

Biðin er hins vegar orðin nokkuð löng hjá mörgum en nú er talað um vaxtalækkun í haust. Segir Tryggvi almenning finna vel fyrir verðbólgunni enda orðið algengara að fólk falli á greiðslumati og hinir taka undir.

„Þetta er þyngra og það eru hlutfallslega fleiri að falla á greiðslumati en nokkurn tíma áður. Í þeim keðjum sem ég er með í gangi þá hef ég aldrei áður lent í því að fólk hafi fallið svona oft á greiðslumati,“ segir Björn og Friðrik tekur undir „Þetta er eitthvað sem maður sá varla fyrir nokkrum árum, greiðslumatið var bara formsatriði.“

Erfið staða fyrir fyrstu kaupendur

Fasteignasalarnir þrír segjast finna fyrir því að margir foreldrar séu að hvetja börnin sín til að kaupa sína fyrstu eign sem allra fyrst. Markaðurinn er á uppleið og næsta víst að hann mun taka góðan kipp þegar vextir byrja að lækka. Þó nokkuð er um að foreldrar séu að aðstoða börnin sína við að komast inn á markaðinn og markmiðið er að koma þeim inn áður en hækkanirnar byrja að einhverju ráði,“ segir Björn. Hann segir að það sé hins vegar svolítið erfitt fyrir marga foreldra að útskýra fyrir unga fólkinu að það sé skynsamlegt að taka allt spariféð og setja það í íbúð en vera samt að borga 50-100 þúsund með húsnæðinu á hverjum mánuði og fá enga verðhækkun á eignina.

Lánin éta jafnóðum upp þá verðhækkun sem undir venjulegum kringumstæðum ætti að eiga sér stað. Þó fasteignaverð sé að hækka, þá eru vextirnir svo háir og fólk er að lengja í lánunum og fara í verðtryggð lán, og þá gufar upp þessi eignamyndum sem hefði átt að verða, segir Friðrik en Björn bætir vongóður við; En þetta er tímabil sem spannar kannski 6-12 mánuði í viðbót, þegar vextirnir fara niður. Ég myndi ætla að við hljótum að vera að nálgast eitthvað sem heitir topp í þessum efnum. Tryggvi tekur undir að það sé erfitt fyrir fyrstu kaupendur að komast inn á markaðinn og það sé sorglegt að í þessu ástandi verði þeir ríku bara ríkari og á meðan unga fólkið sitji eftir. Það er skelfilegt fyrir ungt fólk sem er búið að safna pening að geta ekki farið inn á markaðinn af því að vaxtastigið er svo hátt,“ segir Tryggvi.

Ekki til hagstæð lán

Aðspurðir að því hvað þeir ráðleggi ungu fólki í dag, á það að fara inn á markaðinn núna eða bíða og hvers konar lán er þá best að taka, þá segjast þeir reyna að sleppa við allar slíkar ráðleggingar. Við vísum fólki bara í bankana, það er best að fá ráðleggingar frá þeim sem verið er að lána frá, segir Tryggvi og bætir við að fyrir fjórum árum síðan þá voru lánin oftast til helminga óverðtryggð á móti verðtryggðum lánum. Óverðtryggða lánið var þá látið vera aðeins styttra af því að vextirnir voru góðir. Ef fólk var snöggt að borga óverðtryggða lánið upp gat það farið í endurfjármögnun og tekið 50% af verðtryggða láninu og sett það aftur í óverðtryggt. Svona náði fólk að eignast pínu meira í eigninni og svo kom séreignasparnaðurinn inn í þetta líka. Þetta er öðruvísi núna því það er ekkert lán í dag sem er hagstætt að mínu mati, miðað við það sem á undan er gengið.“

Engin afgreiðsla á hlutdeildarlánum

Talið berst að hlutdeildarlánunum sem kynnt voru sem góð lausn fyrir fyrstu kaupendur til að komast inn á markaðinn. Lánin eru einungis veitt á nýjar íbúðir sem hafa verið samþykktar af HMS. Segir Friðrik að það sé sannarlega til kaupendahópur á Akureyri sem vill nýta sér þennan kost en engar úthlutanir hafi verið hjá HMS í marga mánuði. Það stendur í reglugerðinni að það skuli úthlutað mánaðarlega en þeir eru búnir að brjóta það í þrjá mánuði. Það voru áætlaðir 3 milljarðar í þetta og þeir fóru bara strax. Nú er búið að bæta við einum milljarði en það er ekkert vitað hvenær hægt er að sækja um hann. HMS gefur engin svör og á meðan hangir fólk og bíður í óvissu. Þessi framkoma gagnvart fólki sem ætlar sér að sækja um þetta er engan vegin boðleg, segir Friðrik hneykslaður á seinaganginum.

  • Á MORGUN - Meiri umfjöllun um fasteignamarkaðinn á Akureyri