Máluðu bæinn bláan á 112 daginn – MYNDIR
![](/static/news/lg/112-nota-adal-bj5a0855.jpg)
Í tilefni 112 dagsins sem ætíð er haldinn 11. febrúar – 11.2. – óku viðbragðsaðilar á svæðinu stóran hring um Akureyri í dag með kveikt á forgangsljósum. Fólk hafði verið hvatt til þess að fylgjast með lestinni í sínu hverfi og margir gerðu það.
Yngsta kynslóðin hafði augljóslega mjög gaman af þessum flottu ökutækjum, bláu ljósunum og sírenum sem heyrðust stöku sinnum. „Ég vil sjá þá aftur!“ sagði ungur drengur við foreldra sína eftir að bílalestin fjarlægðist þar sem þau fylgdust með af bílastæðinu við verslunarkjarnann Norðurtorg.
Bílaflotinn á lóð Slökkvistöðvarinnar á Akureyri áður en haldið var af stað. Mynd: Hilmar Friðjónsson
Lagt var af stað frá Slökkvistöðinni á Akureyri kl 17:30, ekið út í Glerárhverfi, þaðan upp á Brekku og loks í Innbæinn áður en haldið var norður Glerárgötu og niður Tryggvabraut, að slökkvistöðinni á ný.
Næstkomandi sunnudag, 16. febrúar, verða allir viðbragðsaðilar með umfangsmikla dagskrá á Glerártorgi frá kl. 14.00 til 16.00 þar sem yfirskriftin í ár er Börn og öryggi.
Bílalestin ekur norður Hörgárbraut. Mynd: Haraldur Ingólfsson