Málþing: Hættur gegn börnum í stafrænum heimi

Félagsmiðstöðvar Akureyrar og Akureyrarbær bjóða til málþings í Hofi kl 16.30 í dag, undir yfirskriftinni 'Vernd og viðbrögð - kynferðisafbrot barna og ungmanna í nútímasamfélagi'. Í lýsingu á málþinginu segir: Í nútímasamfélagi eiga börn og ungmenni í sífellt meiri samskiptum í gegnum stafræna miðla – þar sem mörk geta orðið óskýr, hættur leynast og aðgengi gerenda að börnum er meira en nokkru sinni fyrr.
Öll eru velkomin á meðan húsrúm leyfir, málþingið gæti verið sérstaklega áhugavert fyrir foreldra, fagfólk, kennara, starfsfólk í tómstundastarfi og aðra sem umhugað er um velferð barna og ungmenna. Meðal þess sem skoðað verður er hvernig þessi brot birtast í dag, hver staða barna og ungmenna er í stafrænum samskiptum og hvaða hlutverki samfélagið gegnir í vernd og viðbrögðum.
Sérstök áhersla verður lögð á þá ógn sem stafrænn heimur getur skapað – þar á meðal tælingu (e.grooming) í gegnum samfélagsmiðla eins og Snapchat og TikTok, þar sem gerendur mynda tengsl við börn með það að markmiði að brjóta á þeim.
Erindi á málþinginu:
- Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, Barnaheill – Þegar kynferðisbrot eiga sér stað milli unglinga á grunnskólaaldri
- Skarphéðinn Aðalsteinsson, Lögreglan á Norðurlandi eystra – Tælingar og kynferðisafbrot
- Svandís Anna Sigurðardóttir, Stígamót – Sjúkást á Sjúktspjall: Sambönd, samskipti og ofbeldi ungmenna á nafnlausu netspjalli
- Skúli B. Geirdal, sviðsstjóri SAFT – Foreldrar og samfélagsmiðlar: Leiðarvísir um netheima
Fundastjóri er Hilda Jana Gísladóttir.
Í lok erindanna verður pallborðsumræða með fyrirlesurunum þar sem gestum gefst tækifæri til að spyrja og taka þátt í umræðunni.
Hér má skoða viðburðinn á Facebook.