Málþing á Múlabergi um áföll í starfi
„Við höfum haft það bak við eyrað lengi, að bjóða upp á málþing um áföll í starfi,“ segir Sigrún Heimisdóttir, sálfræðingur og framkvæmdastjóri Heilsu- og sálfræðiþjónustunnar á Akureyri. „Hugmyndin þróaðist svo í vor á kaffistofunni, eins og svo margar góðar hugmyndir, og fékk að malla með okkur í sumarfríinu. Núna er komið að þessu og málþingið verður haldið föstudaginn 4. október á Múlabergi.“
Katrín Ösp Jónsdóttir er kollegi Sigrúnar í Heilsu- og sálfræðiþjónustunni, en hún er titluð sem hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri greininga- og meðferðaúrræða. Í vor útskrifaðist Katrín úr meistaranámi í geðheilbrigðisvísindum frá Háskólanum á Akureyri og lagði þar sérstaka áherslu á þungbæra lífsreynslu í starfi, og hvaða áhrif það hefur á okkur. „Katrín mun halda erindi á málþinginu og kynna niðurstöður sínar, en auk hennar verða fjölbreytt erindi á dagskrá, auk þess sem við ljúkum deginum á vinnustofu,“ segir Sigrún.
Þegar hluti af starfinu okkar er að hlusta á áföll annarra eða fylgja fólki í gegnum þungbæra lífsreynslu erum við með faghatt og í því hlutverki bælum við ósjálfrátt niður okkar eigin tilfinningalegu viðbrögð
„Við munum fjalla almennt um áföll,“ segir Sigrún. „Það eru mismunandi hugtök í þessu samhengi; þungbær lífsreynsla, áfallastreita, veikindi vegna áfalla og fleira. Svo förum við yfir starfstengdu áföllin og hvernig birtingarmyndirnar þar geta verið. Talað er um bein og óbein áföll; annarsvegar þegar við verðum sjálf fyrir áfalli, en óbeint áfall er þegar þú segir mér frá áfalli sem þú varðst fyrir. Þegar hluti af starfinu okkar er að hlusta á áföll annarra eða fylgja fólki í gegnum þungbæra lífsreynslu erum við með faghatt og í því hlutverki bælum við ósjálfrátt niður okkar eigin tilfinningalegu viðbrögð. Það er þessi bæling sem er lúmsk, vegna þess að við erum náttúrulega bara manneskjur. Hún kostar taugakerfið okkar svo mikið og getur verið stór streituvaldur.“
Hver á að hjálpa mér?
Sigrún talar um mikilvægi þess að það sé til vitund á vinnustöðum um áhættuþætti áfalla. „Það er mikilvægt að veita stuðning, handleiðslu eða viðrun á sumum vinnustöðum. Auðvitað er mesta þörfin kannski hjá þeim sem vinna með fólki; heilbrigðisstarfsfólki, viðbragðsaðilum og fleirum.“ Sigrún segir að málþingið sé fyrir öll áhugasöm, og það þurfi ekki að tilheyra neinni sérstakri starfsstétt. „Þú getur orðið fyrir þungbærri lífsreynslu eða áfalli í störfum víðsvegar í þjóðfélaginu. Það getur til dæmis verið þungbært að vera kennari og horfa á eftir barni fara heim úr skólanum, ef þú veist af erfiðum heimilisaðstæðum. Þar sem fólk upplifir vanmátt gagnvart álagi annarra.“
Langvarandi streita er lúmskur baggi
„Það er líka mikilvægt að erfið upplifun fólks er ekki alltaf áfall,“ segir Sigrún. „Við tölum líka um þungbæra lífsreynslu, langvarandi álag, streituvalda o.fl. sem getur verið ætandi til langs tíma.“ Sigrún bendir á að fólk sem til dæmis er mjög samviskusamt, áhugasamt og duglegt að eðlisfari, nær oft að halda mjög lengi áfram og halda sjó í streituvaldandi umhverfi, en svo er það líkaminn sem fer að láta á sjá og segja stopp. „Vitundarvakning um einkenni langvarandi streitu er gríðarlega mikilvæg,“ bætir Sigrún við.
Við erum öll með eitthvað nesti út í lífið og einhvern bakpoka
„Við ætlum að enda málþingið á vinnustofu þar sem gestir taka þátt með frummælendum, þar sem yfirskriftin er 'Hver á að hjálpa mér?',“ segir Sigrún. „Við gætum staðið frammi fyrir því að vera eini fagaðilinn á ákveðnu sviði, eða kannski gengu allir á vaktinni í gegnum það sama eða ekki hægt að sækja stuðning á augljósan hátt. Hvert á þá að leita? Okkur finnst mikilvægt að ná að ræða og vinna saman að loknum fyrirlestrum um efnið.“
„Við erum öll með eitthvað nesti út í lífið og einhvern bakpoka,“ segir Sigrún. „Við getum haft erfiða hluti tengt fyrri reynslu eða álagi í einkalífinu, með okkur inn á vinnustaðina. Þeir geta grafið undan getu okkar til þess að takast á við streituvalda, álag eða áföll í þeim störfum sem við sinnum. Við getum líka búið yfir miklum styrkleikum til þess að takast á við þessar áskoranir. En þetta er risastór umræða sem við munum koma inn á undir lok málþingsins og skoðum áhrifaþætti eins og forvarnir sem geta skipt sköpum, menningu á vinnustöðum og starfsánægju, stuðning og handleiðslu. Einnig ræðum við ábyrgð okkar sem starfsmanna á að hafa augun opin og að vera meðvituð um viðvörunarmerkin sem geta farið að blikka hjá okkur og hvernig við getum sem best borið ábyrgð á eigin heilsu.“
Áberandi áhugi á umræðunni um starfstengd áföll
„Það er gaman að sjá hvað það er mikill áhugi á þessu málefni,“ segir Sigrún að lokum, en rúmlega 90 manns hafa nú þegar skráð sig á málþingið, og enn er pláss fyrir fleiri. „Við finnum fyrir þörf hjá fagfólki í samfélaginu um að koma saman og eiga samtal um þessa hluti. Það hafa verið mörg þung áföll í samfélaginu undanfarið og fagfólkið sem stendur í því að styðja fólk í gegn um erfiða tíma er vonandi alltaf að verða meðvitaðra um að setja súrefnisgrímuna á sjálft sig líka.“
Hér má sjá dagskránna og nöfn erinda:
Viðburðurinn á Facebook, þar sem finna má upplýsingar um skráningu.