Fara í efni
Íþróttir

Maggi Finns í Heiðursstúku ÍHÍ

Sigurður J. Sigurðsson, þáverandi formaður bæjarráðs, og Magnús E. Finnsson, þáverandi formaður Skautafélags Akureyrar, undirrita samstarfssamning. Á bakvið þá standa Eiríkur Björn Björgvinsson, sem þá var íþróttafulltrúi Akureyrarbæjar, og Hermann Sigtryggsson frá Vetraríþróttamiðstöðinni. Mynd: Sigurgeir Haraldsson.

Á þingi Íshokkísambandsins sem haldið var um liðna helgi var samþykkt reglugerð um heiðursmerkjanefnd og heiðursstúku ÍHÍ og fyrstu meðlimir Heiðursstúkunnar valdir. Þar á meðal var Akureyringurinn Magnús Einar Finnsson sem starfaði um árabil innan Skautafélags Akureyrar og Íshokkísambandsins.

Hér er Magnús ásamt Íslandsmeistaraliði SA í íshokkí 2001. Við hlið Magga er núverandi formaður félagsins, Sigurður Sveinn Sigurðsson. Mynd: Sigurgeir Haraldsson.

Magnús lést árið 2005, en árlega heldur SA hokkímót fyrir eldri leikmenn, Magga Finns-mótið, til minningar um Magnús. Hjá SA er einnig til Minningarsjóður Magnúsar Finnssonar, en tilgangur sjóðsins er að styrkja félagsmenn í Skautafélagi Akureyrar til frekari afreka í þeim íþróttagreinum sem stundaðar eru á vegum félagsins, ferðalaga, náms vegna þeirra sem og annarra verkefna sem eru félaginu til góða, eins og segir í reglum sjóðsins. Magnús átti stóran þátt í uppbyggingu Skautafélags Akureyrar og baráttu félagsins fyrir bættri aðstöðu með byggingu skautahallar. Í minningargreinum um Magnús er hann mikið lofaður fyrir áralangt starf í þágu Skautafélagsins, Skautasambandsins, Íshokkísambandsins og íþróttahreyfingarinnar, þrautseigju og dugnað í því starfi. Hann keppti sjálfur í íshokkí og varð Íslandsmeistari með SA bæði sem leikmaður, þjálfari og liðsstjóri á einhverjum tímabilum.

Magnús sat í stjórn Skautafélags Akureyrar 1979-80 og aftur frá 1987 til dánardægurs í febrúar 2005, þar af formaður félagsins frá 1999. Hann sat í stjórn Skautasambands Íslands 1997-99 og 2001-2004.


Maggi var einn þeirra sem tóku þátt í að koma krulluíþróttinni á fót á Akureyri og stundaði hana sjálfur um tíma. Hér er hann ásamt krulluliði hokkímanna á útisvellinu. Krullan fékk yfirleitt tíma undir miðnættið, en þá hafði líka lægt og komnar froststillur. Frá vinstri: Sveinn Björnsson (Denni), Sigurgeir Haraldsson, Magnús E. Finnsson og Jón S. Hansen, sem lést á annan jóladag í fyrra.

 
Maggi brá sér í alls konar hlutverk í sjálfboðastarfi sínu fyrir Skautafélagið. Hér er hann dómari á barnabmóti í íshokkí í janúar 2001. Mynd: Sigurgeir Haraldsson.


Frétt í Degi 30. október 1992. Þarna er Magnús að taka við fjárstyrk frá ungum hokkístrákum sem söfnuðu styrkjum með því „að skauta á svokölluðum rúlluskautum frá Akureyri til Dalvíkur.“ Með Magnúsi á myndinni eru Rúnar Freyr Rúnarsson (Rúnar Eff), Kjartan Marinó Kjartansson og Elvar Jónsteinsson sem þá voru allir ungir hokkídrengir. Skjáskot af timarit.is.