Lystigarðurinn er fullur af hulduverum
Bryndís Fjóla Pétursdóttir hefur kortlagt álfa og huldufólk í Lystigarðinum á Akureyri og útbúið kort yfir búsetu þeirra sem fengið hefur nafnið Huldustígur. Gestir Lystigarðsins geta nýtt kortið til að nálgast verur garðsins og þá mun Bryndís Fjóla einnig bjóða upp á gönguferðir með leiðsögn eftir Huldustígnum í sumar.
Bryndís vill að Ísland taki forystuna við að kveikja kærleika til náttúrunnar.
Upphaflega byrjaði Bryndís Fjóla á því að kortleggja huldufólk Lystigarðsins síðasta haust fyrir sjálfan sig, en hún hefur frá barnsaldri verið mjög næm á náttúruna og séð bæði álfa og huldufólk. Þegar starfsfólk Lystigarðsins fékk veður af því hvað hún væri að fást við hvöttu það hana til þess að leyfa fleirum að njóta og þannig varð nýsköpunarverkefnið Huldustígur til.
Bryndís Fjóla hélt nýlega kynningu á Huldustígnum á Kaffi Lyst í Lystigarðinum. Hún heldur aðra kynningu á verkefninu í hjúkrunarheimilinu í Lögmannshlíð kl. 13.30 föstudaginn 28.apríl.
Yfirlitskort yfir búsetu hulduvera
Í stuttu máli er um að ræða yfirlitskort yfir Lystigarðinn þar sem finna má álfa og huldufólk, þ.e.a.s. verur sem opnar eru fyrir samskiptum við fólk. Að sögn Bryndísar Fjólu er fleira huldufólk í garðinum en alls ekki allir voru opnir fyrir samstarfi eða samtali og vildu því ekki allir vera með á kortinu. „Kortið verður prentað á lín og er upprúllað. Hugsunin með því er sú að gestir geti tekið það með sér á göngu um Lystigarðinn, sleppi þar með símanum og gangi um með eitthvað í höndunum sem kveikir á skynfærunum,“ segir Bryndís Fjóla en eins verður útbúið veggspjald sem sett verður uppi í garðinum og aðgengilegt öllum allt árið og staðirnir sem um ræðir verða merktir á spjaldinu og í garðinum þar sem við á.
Erlend huldukona í Lystigarðinum
Bryndís Fjóla segir að Lystigarðurinn sé fullur af allskyns hulduverum, sumar þeirra eru þar allt árið en aðrir birtast þegar gróðurinn fer að blómgast. Ein þeirra sem býr í Lystigarðinum allan ársins hring er huldukonan Pía sem heldur til við Síberíueplatréð, en það tré var ræktað upp af fræi sem var sent frá Landbúnaðarháskólanum í Ási í Noregi. Pía fylgdi á sínum tíma fræinu frá Noregi til Íslands og valdi að búa hér með þessu tré. Þetta er í fyrsta skipti sem Bryndís Fjóla kynnist huldukonu sem á rætur sínar að rekja til annars lands, annars er huldufólkið á Íslandi frumbyggjar eins og flest okkar. Bryndís Fjóla segir að Pía sé í eðli sínu heilari og gefi frá sér mikið ljós. „Við tréð hennar er því gott að bera upp sínar bænir og leita ráða.“
Rakel Hinriksdóttir teiknaði kortið af Huldustígnum og verunum sem þar búa. Þessi mynd er af Píu sem er fyrsta huldukonan sem Bryndís Fjóla kynnist sem á rætur að rekja til annars lands.
Allir geta fundið nærveru huldufólks
Líklega hvá einhverjir lesendur yfir þessu tali en Bryndís Fjóla er orðin vön því, enda tengi ekki allir við tal um álfa og huldufólk þar sem fáum er gefið að sjá þessar verur. „Aðeins um 10 - 15 % þjóðarinnar í dag viðurkennir að hafa séð eða sjái huldufólk,” segir Bryndís Fjóla en staðhæfir að allir geti fundið fyrir nærveru þeirra. Kannski má líka kalla þessar verur orku, enda er í raun allt í heiminum orka. Bryndísi Fjólu finnst að Íslendingar eigi að vera stoltir af þessum hæfileika sem blundar í okkur og er hluti þjóðararfsins og halda honum á lofti sem víðast. „Við ættum að vera mjög stolt af því hversu tengd við erum náttúrunni. Það er mikilvægt að fólk geti tjáð sig um sínar upplifanir af huliðsverum og miðlað reynslusögum fyrir komandi kynslóðir, án þess að vera hrætt um að það verði sussað á það. Svörin við öllum okkar spurningum eru í náttúrunni og náttúran vill eiga þetta samtal við okkur, sérstaklega núna.“
Bryndís Fjóla vill aðstoða Íslendinga við að skynja hulduverur náttúrunnar betur. Í lok maí mun hún bjóða upp á gjaldfrjálsar kynningarferðir um Huldustíg þar sem gestum gefst kostur á að spyrja og deila upplifun sinni með henni til frekari þróunnar á fræðsluefni.
Nauðsynlegt að skapa tengsl og skilning
Bryndís Fjóla er ekki sú fyrsta sem leggst í það að kortleggja búsetu huliðsvera. Sjáandinn Erla Stefánsdóttir heitin, bjó til huliðsheima kort yfir Akureyri, sem Katrín Jónsdóttir gaf út 2009, og var þá styrkt af Akureyrarbæ. Bryndís Fjóla útilokar ekki að hún kortleggi fleiri svæði á Íslandi en hún hefur fengið fyrirspurnir víða að. Segist hún vilja að Íslendingar taki forystu í því að kenna/miðla heiminum að tengjast náttúrunni og öllum hennar vættum og hreinlega verði heimsmeistarar í því að miðla sinni upplifun, því hún segir að við höfum alla burði og hæfileika til þess.
„Það þarf að kenna fólki út um allan heim að tengjast náttúrunni og kenna því af hverju það er mikilvægt að vernda náttúruna, okkur ber beinlínis skylda til þess fyrir komandi kynslóðir. Það er ekki nóg að náttúran sé falleg, fólk þarf á raunverulegri tengingu að halda því hún skapar skilning og vellíðan. Heimurinn er að tapa þessari tengingu og víða er fólk nú þegar búið að því. Fólk sem hefur eingöngu alist upp í borgarlandslagi með enga tengingu við náttúruna skilur t.d. ekki af hverju það ætti að varðveita skógarsvæði, árfarvegi og strandlengjur því það hefur aldrei byggt upp þetta samband við náttúruna,“ segir Bryndís Fjóla. Hún bætir við að þar sem Íslendingar séu ennþá frumbyggjar í eðli sínu og hafi enn góðan aðgang að ósnortinni náttúru höfum við hlutverki að sinna.
„Aðeins um 10 - 15 % þjóðarinnar í dag viðurkenna að hafa séð eða sjái huldufólk,” segir Bryndís Fjóla en staðhæfir að allir geti fundið fyrir nærveru þeirra.
Fólk verður að prófa sig áfram
En hvernig ber maður sig eiginlega að vilji maður finna fyrir nærveru hulduvætta og skynja betur orkuna í náttúrunni?
„Ég mæli með því að fólk prófi sig áfram og byrji t.d. á Kærleiksstígnum í Lystigarðinum, gangi þar á milli reynitrjánna og byrji samtalið og spyrji þau í hljóði hvort þau vilji fá faðmlag eða samtal. Fólk finnur fljótt ef tréð er móttækilegt fyrir því og við æfum okkur í því að finna hvort við fáum jákvætt eða neikvætt svar í formi orku/nærveru. Æfingin skapar meistarann. Með því að finna tengingu við náttúruna byggjum við upp kærleiksríkt samband við hana og getum betur staðið vörð um hana og styrkt hana í hennar réttindabaráttu,“ segir Bryndís Fjóla.
Markmiðið með kortinu Huldustíg er að gefa öllum, börnum og fullorðnum möguleikann á að byrja samtalið við náttúruna í öruggu og aðgengilegu umhverfi, allt árið. Þannig vill Bryndís Fjóla aðstoða Íslendinga við að skynja hulduverur náttúrunnar betur. Í lok maí mun hún bjóða upp á gjaldfrjálsar kynningarferðir um Huldustíg þar sem gestum gefst kostur á að spyrja og deila upplifun sinni með henni til frekari þróunar á fræðsluefni. Þessar ferðir verða auglýstar í Dagskránni en sala á gönguferðum með leiðsögn bæði á íslensku og ensku byrja í júní. Áhugasamir geta fylgst með upplýsingum á heimsíðu Bryndísar Fjólu bryndis.is þegar nær dregur.
Þurfum að hlusta á náttúruna
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Bryndís Fjóla kynnir hulda heima fyrir útlendingum því hún hefur síðastliðin 15 ár tekið reglulegu á móti erlendum ferðamönnum og veit því að það er mikill áhugi fyrir málaflokknum. „Minn draumur er sá að Ísland taki forystuna við að kveikja kærleika til náttúrunnar hjá fólki. Að erlendir ferðamenn komi hingað til lands og finni þessa tengingu og haldi síðan samtalinu við náttúruna áfram heima hjá sér. Bæði við og náttúran þurfum á því að halda að við mannfólkið hlustum á náttúruna og öðlumst dýpri skilning á henni.“