Fara í efni
Menning

Ljósmyndir Hallgríms Einarssonar og sona

Hafnarstræti 41 þar sem Hallgrímur bjó og rak ljósmyndastofu sína. Hann setti sýningarkassa með ljósmyndum utan á húsið.

SÖFNIN OKKAR – XVFrá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Ljósmyndir eru mikilvægar heimildir og geta oft gefið mikilvægar upplýsingar um fólk, umhverfi og tíðaranda. Þegar Minjasafnið á Akureyri var stofnað 1962 voru ljósmyndir eitt af því sem var safnað og hefur sú söfnun og skráning haldið áfram æ síðan. Safnið tekur til varðveislu myndir frá einstaklingum, ljósmyndastofum og einstaka fyrirtækjum. Í dag eru yfir þrjár milljónir ljósmynda í safninu. Úr þessum ríkulega ljósmyndabrunni er miðlað í fræðslu og sýningar, í hann leita einstaklingar, útgáfufyrirtæki, fjölmiðlar og fræðafólk.

Hallgrímur Einarsson

Hornsteinn ljósmyndasafns Minjasafnsins eru ljósmyndir ljósmyndastofu Hallgríms Einarssonar sem var starfrækt frá 1903-1977. Hallgrímur Einarsson (1878-1948) lauk ársnámi hjá einum þekktasta ljósmyndara Danmerkur með ágætis vitnisburði þó hann væri aðeins á 17. ári. Aldurinn var ekki að þvælast fyrir honum og þegar heim var komið um vorið 1895 stofnaði hann Ljósmyndastofu H. Einarssonar á Seyðisfirði.

Hallgrímur flutti til Akureyrar árið 1903 í nýbyggt tvílyft timburhús að Hafnarstræti 41. Þar rak hann ljósmyndastofu sína á annarri hæð hússins sem var með vegg- og loftglugga til vesturs að brekkunni. Slíkt var ljósmyndara afar nauðsynlegt í glímu sinni við ljósmyndatæknina. Heimili Hallgríms var á efri hæð hússins framan af, neðri hæðina leigði hann út en rak verslun í kjallaranum.

Danski Oddfellowar á ferð í Hafnarstræti í byrjun 20. aldar fyrir framan hús Grundarverslunar, Magnúsar Sigurðssonar frá Grund í Eyjafirði, sem átti fyrstu bifreið í Eyjafirði.

Hallgrímur var framtakssamur og hóf t.d. strax árið 1902 sölu á póstkortum með eigin myndum og hvatti kaupmenn til að hafa slík spjöld frekar á boðstólum en erlendar myndir. Í þessu var nokkur áhætta var fólgin. Þegar ljósmyndari tók mynd á stofu af viðskiptavini hafði hann að öllu jöfnu trygga greiðslu fyrir þeim kostnaði sem hann lagði út fyrir. En þegar teknar voru myndir utandyra af landslagi eða bæjarlífinu var enginn ákveðinn kaupandi að myndinni.

Reksturinn gekk hins vegar vel og þegar Hallgrímum fór yfir í ljósið handan þessa heims tóku synir hans, Kristján og Jónas við ljósmyndastofunni og ráku til ársins 1977 á ýmsum stöðum.

Arfleifð Hallgríms hélt líka áfram í gegnum linsur annarra ljósmyndara því við fótskör meistara Hallgríms námu 19 ljósmyndarar tæknina og handbragðið.

Hafnarstræti 41 er lengst til hægri á myndinni. Tvílyft timburhús þar sem Hallgrímur bjó og rak ljósmyndastofu sína. ATELIER H. EINARSSON stendur á gafli hússins; vinnustofa H. Einarsson.

Ljósmyndir Hallgríms er sannkallaður fjársjóður fyrir sögu Akureyrar. Á 100 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar 1962 var haldin vegleg myndasýning í Gagnfræðaskóla Akureyrar m.a. með fjölmörgum úr safni H. Einarssonar. Þessar myndir urðu í framhaldinu hluti af grunnsýningu Minjasafnsins á Akureyri við stofnun þess 1962. Árið 1978 keypti Akureyrarbær allt safn ljósmynda Hallgríms og fól í kjölfarið Minjasafninu að varðveita safnið í heild sinni.

Hér má sjá úrval mynda úr safni Hallgríms á vef Minjasafnsins:

https://www.minjasafnid.is/is/minjasafnid/myndir/hallgrimur-einarsson-ljosmyndir

Einnig er hægt að skoða myndir frá ljósmyndastofu H. Einarssonar á sarpur.is

Horft yfir Grófargil á Akureyrarkirkju 1940. Á lóðinni var áður leikvöllur og hægra megin fyrir miðri mynd má sjá skúrinn sem var á leiksvæðinu. Ónefndir piltar gerðu sér að leik að klifra upp vinnupallana og standa á höndum efst á byggingunni.

Hótel Akureyri, stórhýsið sem brann 1955.

Ástar Brandur var landsþekktur drykkjumaður en útsjónarsamur og lét útbúa póstkort með sjálfum sér til að selja. – mynd Kristján Hallgrímsson