Fara í efni
Mannlíf

Ljósin tendruð á trénu og jólatorgið opnað

Í dag, sunnudaginn 1. desember, er komið að því að ljósin verði tendruð á jólatrénu á Ráðhústorgi með lúðrablæstri, kórasöng og jólasveinasprelli. Við sama tækifæri verður einnig formleg opnun á Jólatorginu þar sem til sölu verður ýmis varningur sem að mestu tengist hátíðarhöldunum. Viðburðurinn hefst kl. 15 og verður boðið upp á dagskrá fyrir börn og fullorðna þá daga sem Jólatorgið verður opið.

Með Jólatorginu er ætlunin að skapa hátíðlega aðventustemningu á Ráðhústorginu. Í dag kl. 15-17 verður jólalegur varningur í skreyttum jólahúsum ásamt söng og gleði á Ráðhústorgið þar sem þátttakendur verða Jónína Björt, Jóla Lóla, Lúðrasveit Akureyrar, jólasveinar, Barna- og unglingakór Glerárkirkju, danski sendiherrann, bæjarstjórinn og Skátafélagið Klakkur.

Dagskráin í dag er í stórum dráttum svona:

  • Kl. 15-17 Jólalegur varningur í skreyttum jólahúsum og Skátafélagið Klakkur verður á staðnum með sölu og eldstæði.
  • Kl. 15.15 Jónína Björt flytur jólalög
  • Kl. 15.30 Jóla Lóla og vinir heilsa upp á börnin
  • Kl. 15.45 Lúðrasveit Akureyrar
  • Kl. 16.00 Jólasveinar mæta á svæðið
  • Kl. 16.00-16.30 Erik Vilstrup Lorenzen sendiherra Danmerkur á Íslandi, Geir Kristinn Aðalsteinsson, ræðismaður Danmerkur á Norðurlandi og Ásthildur Sturludóttur, bæjarstjóri flytja ræður.
  • Kl. 16.30 Ljósin tendruð á jólatrénu
  • Kl. 16.40 Barna- og unglingakór Glerárkirkju undir stjórn Margrétar Árnadóttur flytur nokkur jólalög
  • Kl. 16.50 Jólasveinar dansa og sprella með börnunum
  • Kl. 17.00 Dagskrá lokið

Ítarlegri upplýsingar um Jólatorgið og það sem verður í boði helgarnar 7.-8. og 14.-15. desember má finna hér.

Götulokanir þegar Jólatorgið er opið

Myndin hér að neðan sýnir þær götulokanir sem verða í gildi á sunnudag í tengslum við dagskrána á Ráðhústorginu og opnun Jólatorgsins. Lokanirnar gilda einnig þær helgar sem Jólatorgið verður opið, 7.-8. og 14.-15. desember kl. 12-18.

Göngugötuhluti Hafnarstrætis verður lokaður á umræddum tímum, ásamt Túngötu, neðsta hluta Brekkugötu, og hluta Strandgötu og Skipagötu.