Ljósameðferðarstofa opnuð á Læknastofunum
Spoex ljósameðferðarstofa fyrir psoriasis- og exem sjúklinga var opnuð á Akureyri síðastliðinn mánudag. Spoex er skammstöfun fyrir Samtök psoriasis- og exemsjúklinga.
Starfsemin er til húsa hjá Læknastofum Akureyrar á Glerártorgi en þar er nú boðið upp á UVB ljósameðferð undir eftirliti sérfræðings í húðsjúkdómum ásamt ráðgjöf og fræðslu. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, var viðstaddur opnunina. Greint er frá þessu á vef Stjórnarráðsins.
„Undanfarið hefur verið unnið að því að tryggja framtíð ljósameðferðar á Akureyri, þ.e. meðferð í ljósaklefa við húðsjúkdómum/vandamálum. Meðferðin stóð einstaklingum til boða á Sjúkrahúsinu á Akureyri þar til nýlega og ljóst var að tækjabúnaðurinn þarfnaðist endurnýjunar,“ segir í tilkynningunni.
„Til að tryggja áframhald á þessari mikilvægu þjónustu á Akureyri var 9 milljónum króna veitt til félagsins til kaupa á nýjum ljósaskáp sem og nýju fóta- og handaljósatæki. Ljósameðferð hefur reynst mörgum vel og er þjónusta SPOEX veitt samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.“
HVAÐ ER PSORIASIS?
Í tilkynningunni á vef stjórnarráðsins segir:
- Psoriasis er langvinnur bólgusjúkdómur þar sem ónæmiskerfi einstaklingsins byrjar að mynda mótefni gegn eigin frumum.
- Einkennin birtast yfirleitt í húð sem rauðar upphleyptar skellur þaktar hvítu hreystri, með kláða og jafnvel verkjum.
- Sjúkdómurinn getur einnig komið fram í liðum, sem psoriasis gigt, eða í líffærum.
- Árið 2014 skilgreindi Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) psoriasis sem „alvarlegan, sársaukafullan, hamlandi og ólæknandi sjúkdóm“ og samkvæmt rannsóknum Alþjóðahreyfingar psoriasis samtakanna, IFPA, hefur sjúkdómurinn áhrif á daglegt líf hjá 60% þeirra sem greindir eru með hann og telja tæplega 80% sig hafa mætt fordómum vegna sjúkdómsins.
- Ýmsar meðferðir eru til við sjúkdómnum en engin lækning hefur fundist.