Fara í efni
Fréttir

Ljósaganga gegn ofbeldi í dag kl. 16:30

Í dag hófst 16 daga alþjóðlegt átak gegn kynbundnu ofbeldi með vitundarvakningu sem UN WOMEN standa fyrir. Þrír klúbbar, Zontaklúbbarnir Þórunn hyrna og Zontaklúbbur Akureyrar, ásamt Soroptimistaklúbbi Akureyrar, standa fyrir ljósagöngu í dag til að vekja athygli á málefninu og lýsa yfir andstöðu gegn ofbeldi á stúlkum og konum, sem og öllu öðru ofbeldi. 

Ljósagangan hefst kl. 16:30 í dag og verður gengið frá Zontahúsinu í Aðalstræti 54, meðfram Leirutjörninni að Bjarmahlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, í Aðalstræti 14. Við lok göngunnar ávarpar sr. Hildur Eir Bolladóttir hópinn og síðan verða afhentir styrkir úr minningarsjóði.

Í kynningu á viðburðinum á Facebook kemur fram að þetta 16 daga átak eigi rætur aftur til ársins 1991 og að tímabil átaksins tengi á táknrænan hátt saman dagana 25. nóvember, sem er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum, og 10. desember, sem er alþjóðlegi mannréttindadagurinn. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls ofbeldis.

Í lok göngunnar fer fram fyrsta styrkafhending úr minningarsjóði Rósu Eggertsdóttur, „List styður list“. Sjóðurinn er í vörslu Zontaklúbbsins Þórunnar hyrnu og hefur það hlutverk að styrkja konur, stúlkur og kvár til listsköpunar og mennta.