Fara í efni
Mannlíf

Litrík gleði á Hinsegin hátíð í Hrísey um helgina

Linda María, einn skipuleggjenda Hinsegin hátíðar í Hrísey. Mynd: Facebook síða Grétu Kristínar Ómarsdóttur
Helgin verður í regnbogans litum í Hrísey, þegar Hinsegin hátíðin verður haldin í annað skipti. Linda María Ásgeirsdóttir á frumkvæði að hátíðinni ásamt Kristínu Björk Ingólfsdóttur og Ingimari Ragnarssyni. „Við erum öll foreldrar hinsegin barna,“ segir Linda María í samtali við blaðamann Akureyri.net. „Við sjáum um undirbúning og svona, en höldum hátíðina í nafni ferðamálafélags Hríseyjar.“
 
„Á dagskrá verða aðallega gleði og hamingja,“ segir Linda. „Hátíðin hefst í kvöld og nær hápunkti á morgun kl. 14 þegar gleðigangan leggur af stað.“ Hrísey er þekkt fyrir traktorana, sem eru algengur fararskjóti eyjarskeggja, en í gleðigöngunni fá þeir upplyftingu og eru skreyttir í anda hinsegin regnbogans. „Allur bærinn er skreyttur, en það var ofboðslega gaman að sjá það í fyrra hvað fólk var duglegt að taka þátt og skreyta garða og allt mögulegt.“
 
 

Krakkarnir í unglingavinnunni í Hrísey máluðu regnbogagangbraut fyrir hátíðina í vikunni. Mynd: Facebook
 
Hátíðin var haldin seinnipartinn í júlí á síðasta ári, en er núna færð fram um mánuð. „Við erum kannski að renna svolítið blint í sjóinn, við vitum ekki hvort það breytir einhverju að halda hátíðina núna, en það var vel mætt í fyrra og við vonumst auðvitað eftir fullt af gestum til þess að gleðjast með okkur,“ segir Linda. „Við leggjum okkur fram við að hafa norðlenska skemmtikrafta, en á dagskránni er fullt af skemmtilegu fólki hérna af svæðinu.“ HÉR má sjá dagskrána.
 
 

Gleðigangan á Hinsegin dögum í fyrra. Mynd: Facebook síða Hinsegin daga í Hrísey
 
Eftir hátíðina síðasta sumar skrifaði Gréta Kristín Ómarsdóttir, leikstjóri og dóttir Lindu Maríu eftirfarandi orð á Facebook síðu sína: „Það eru ómetanleg forréttindi að finna þvílíkan samhug og samkennd í verki í sinni heimabyggð. Takk Hrísey og fallega samfélagið mitt fyrir að sýna hvernig hjartað ykkar slær, takk fyrir að mæta, vera með, hlusta og gefa pláss.“