Fara í efni
Fréttir

Lítill áhugi á tungumálum í MA

Engir nýnemar verða á Mála- og menningarbrautinni í MA. Unga kynslóðin virðist ekki hafa mikinn áhuga á því að læra tungumál á skólabekk.

Engir nýnemar hefja nám á mála- og menningarbraut í Menntaskólanum á Akureyri þetta haustið. Of fáir sýndu áhuga á náminu og verður brautin því ekki kennd.

Að sögn Sigurlaugar Önnu Gunnarsdóttur, aðstoðarskólameistara í MA, voru nýir nemar ekki heldur teknir inn á brautina haustið 2021. Þá sóttu aðeins örfáir um inngöngu, þannig að enginn útskrifaðist af brautinni í vor. Í 2. bekk er mjög fámennur hópur á mála- og menningarbrautinni.

Málabrautir virðast deyjandi

Aðspurð að því hvað valdi þessu áhugaleysi á tungumálum segir Sigurlaug Anna að það sé ekki gott að segja. „Mögulega finnst nemendum enskan duga þeim og áhugi á að læra önnur tungumál í skóla fari því minnkandi. Tungumálakennarar hjá okkur hafa heyrt hjá kollegum sínum erlendis að sama þróun sé víða. Málabrautir virðast deyjandi og er í raun aðeins í MR núna eftir því sem ég best veit. En tungumál eru auðvitað kennd í öllum framhaldsskólum.“

Nemandafjöldi svipaður og áður

Nemendafjöldi í MA verður svipaður í vetur og undanfarin ár en fjárheimilidir gera ráð fyrir 580 nemendum. Lengi hefur aðeins verið einn bekkur á málabraut svo þó brautin falli niður er ekki um mikinn fjölda að ræða sem dreifist á aðrar brautir. „Við stofnuðum kjörnámsbraut í sviðslistum 2020 (einn bekkur) en annars er skipting nýnemahópsins nokkuð jöfn núna á félagsgreinabraut og raungreinabrautir,“ segir Sigurlaug Anna. Aðspurð að því hvort einhver önnur braut sé í hættu á að vera felld niður segir Sigurlaug Anna svo ekki vera. „En frá því að við byrjuðum með kjörnámsbraut í sviðslistum höfum við tvívegis ekki náð í heilan bekk og samkennt þeim með öðrum brautum nema í sérgreinum. Nemendur sem eru á raungreinabrautum taka öll það sama á fyrsta ári en skiptast svo í þrennt, heilbrigðisbraut, náttúrufræðibraut og raungreina- og tæknibraut. Það er nokkuð breytilegt eftir árum hvernig nemendur velja, og t.d. varð náttúrufræðibrautin ekki fyrir valinu í ár. En svo gæti það orðið með öðrum hætti hjá þessum árgangi sem er að byrja núna.“