Listaverk á ferðalagi: Lendir taska hjá þér?
Sex ferðatöskur fullar af list verða sendar af stað í ferðalag í dag. Töskurnar verða samfellt á ferðalagi í átta vikur innan Akureyrar en með gjörningnum, sem kallast „Ferðalag“, vill myndlistarkonan Jonna, Jónborg Sigurðardóttir, koma listinni til fólksins.
„Það er bara svo mikið af fólki sem kemur ekki á listasöfn og þá er ég bara að koma listinni til þeirra sem koma alla jafna ekki á listsýningar,“ segir Jonna sem mun dúkka óvænt upp með töskurnar hjá fyrirtækjum og stofnunum á Akureyri og einfaldlega spyrja hvort hún megi skilja sýningarsalinn sem býr í ferðatöskunni eftir á staðnum fyrir fólk til að njóta í viku. „Töskurnar dúkka bara upp hjá fólki, það gæti t.d verið á leikskóla, á kaffistofu á einhverjum vinnustað, elliheimili eða í verslun. Ég er ekkert að auglýsa hvar þær verða því ég fer af stað með þær og ef fólk segir nei og vill ekki hýsa þær, þá fer ég bara með töskurnar eitthvert annað.“
Töskurnar hefur Jonna keypt á nytjamörkuðum eða fengið gefið en margar þeirra hafa verið vel nýttar og ferðast víða.
Hvað leynist í ferðatöskum Jonnu? Kannski kemur sýningin „Ferðalag“ á þinn vinnustað. Hver taska er sýningarsalur og verður viku í senn á hverjum stað en ferðast svo á þann næsta.
Heill sýningarsalur í tösku
Innihaldið í töskunum er allt af ólíkum toga. Hver taska inniheldur listaverk sem eru öll unnin út frá einhverskonar endurvinnsluefnum. „Ein taskan er með verki sem heitir „Hinn sokkurinn hans Guðmundar“ sem er unnið úr stökum sokkum. Önnur taska er með leikföngum og dóti sem annars hefði lent í ruslinu og það verk nefnist „Drasl“. Eitt verkið heitir „Frú Elísabet“ og það er unnið úr sokkabuxum sem eldri borgari var búinn að safna saman í mörg ár og gaf mér,“ segir Jonna. Töskurnar verða svo til sýnis fyrir alla síðar í vetur en staðsetningin er enn óljós.
Jonna situr í Mjólkurbúðinni þessa daga að vinna að textílverki úr garnafgöngum en fólk er mjög duglegt að gefa henni garn sem það er ekki að nota. Garnið nýtir hún í listsköpun sína.
Innsetning í vinnslu í Mjólkurbúðinni
Það er annars nóg að gera hjá Jonnu, sem er bæjarlistamaður Akureyrar. Í Mjólkurbúðinni í Listagilinu er nú í gangi sýning sem nefnist „Jónborg Garnborg.“ Þar verða textílverk til sýnis, annars vegar verk sem Jonna er nú að vinna að á staðnum úr garnafgöngum, auk þess sem hún mun einnig setja þar upp verkið „Undir yfirborðinu“ sem hún sýndi sumarið 2024 í The factory í Djúpuvík à Ströndum. Hægt er að fylgjast með framgangingum í gegnum gluggann á Mjólkurbúðinni en sýningin verður svo formlega opin helgina 25. og 26. janúar milli kl. 14 og 17.