Fara í efni
Mannlíf

Listakona, sútari og hvítabjörn á Hjalteyri

Þófinn á hvítabirninum sem gekk á land á Hornströndum árið 2011. Nú er hann kominn á Hjalteyri í sútun hjá Lene Zachariassen. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Ýmislegt forvitnilegt má skoða hjá sútaranum og listakonunni Lene Zachariassen á Hjalteyri. Hrossháralistaverk, málaðar gærur, trommur úr allskyns skinni, ígulkerjatennur, grásleppulampar og svo ótalmargt annað. Hún tekur að sér sútun á allskyns skinnum og það er fátt úr dýraríkinu sem hún sér ekki fjársjóðinn í. Það er þó ekki erfitt að sjá mikilfengleikann í nýjasta viðfangsefninu.

  • Akureyri.net heimsótti Lene á vinnustofu hennar á Hjalteyri. Síðari hluti viðtalsins birtist á morgun.

Maður fyllist náttúrlega lotningu. Þetta er konungur Norðurslóða.

Þann 2. maí 2011 kom hvítabjörn á land á Hornströndum. Þar var á ferð birna í minni kantinum, soltin og ráðvillt eins og við var að búast eftir ferðalagið. Hún var skotin til bana skammt eftir landgöngu. Samkvæmt frétt Vísis frá 2011, var það Lögreglan á Ísafirði sem stjórnaði aðgerðum og með í för voru fulltrúar Umhverfisstofnunar, fulltrúi yfirdýralæknis ásamt reynslumiklum skyttum. Eftir þessi ósköp var gert að hræinu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og skinnið sett í frysti. Nú er birnan loksins afþídd, þrettán árum síðar, og komin í traustar hendur Lene á Hjalteyri.

 

Lene með ísbjarnarhramm sem hún sútaði áður og vann. Mynd RH

„Þessi birna var lítil og ræfilsleg, en skinnið er í góðu standi,“ segir Lene, þar sem hún stendur við hliðina á blautri húð ferðalangsins hvíta sem endaði för sína í þessum heimi fyrir þrettán árum síðan. „Það var strax metið sem svo að hún væri hættuleg og ekki reynt að bjarga henni. Hætta var á að hún myndi stinga sér til sunds aftur og koma þá jafnvel á land nærri byggð.“ Áður en birnan var fryst var allt tekið innan úr henni, segir Lene, en það beið hennar að ná beinunum úr fótunum.

Næsta ferðalag birnunnar er rétt að hefjast

„Ef vel tekst til hjá mér,“ segir Lene, „þá fer hún næst til uppstoppara og verður stoppuð upp í heilu lagi.“ Það er Náttúrufræðistofnun Íslands sem á birnuna og mun ákveða hvar hún fær að standa til framtíðar. Lene segir að það sé mögulegt að hún fái heimili einhversstaðar fyrir vestan.

Þegar búið verður að súta skinnið fer birnan aftur í frost þangað til uppstopparinn er tilbúinn að taka við henni. „Hún er náttúrlega eign þjóðarinnar og mér finnst gott að hún komist aftur til þjóðarinnar, eftir öll þessi ár,“ segir Lene. „Það skapar líka meiri umræðu um þessi dýr, ef þau fá einhvern sess í tilverunni aftur. Lifna við á ný.“ Lene bendir einnig á að komu hvítabjarna til Íslands fylgi mikil og merkileg saga sem verði áþreifanlegri þegar við sjáum dýrin sjálf og finnum nærveru þeirra.

 

Lene hefur safnað ýmsum gripum sem tengjast hvítabjörnum og eru þeir til sýnis á Skinnaloftinu hennar á Hjalteyri. Mynd RH

„Mín skoðun er sú að það er svo erfitt að senda svona dýr aftur til baka,“ segir Lene, aðspurð um hvað henni finnist að eigi að gera við hvítabirni þegar þeir koma á land. „Við vitum náttúrlega ekki hvaðan dýrið kemur nákvæmlega. Ég veit líka að ísbjarnarstofninn á Grænlandi er mjög viðkvæmur, þannig að ef það kemur dýr inn í hóp sem það á ekki uppruna frá getur það valdið vandamálum. Bæði gæti dýrið borið með sér sjúkdóma og svo er þetta líf svo viðkvæmt. Auk þess held ég ekki að Grænlendingar kæri sig um að fá dýrin til baka. Það er mín tilfinning.“

Í dag gætu þeir kannski lifað á túristum og kindum

„Hvítabirnir hafa aldrei getað lifað á Íslandi,“ segir Lene. „Það eru engin ummerki um slíkt. Þeir hafa alltaf komið reglulega samt. Í dag gætu þeir kannski lifað á túristum og kindum, ég veit það ekki,“ segir Lene hlæjandi. „En okkur langar náttúrlega ekki að komast að því, þetta er auðvitað rándýr. Stórhættulegt dýr sem borðar mikið kjöt.“

Einstakt og sjaldgæft viðfangsefni

„Maður fyllist náttúrlega lotningu,“ segir Lene um að fá tækifæri til þess að vinna með svona dýr. „Þetta er konungur Norðurslóða. Mér finnst alltaf forréttindi að fá að hafa hendur á svona skepnu og bjarga því sem hægt er að bjarga. Þetta er eiginlega bara ævintýri, að vinna með hana.“ Lene segist spá í líf þessarar birnu þegar hún eyðir með henni tíma. „Hefur hún verið í góðum holdum? Hefur hún lent í bardaga? Hvað hefur hún tekist á við? Það var sagt að hún hefði ekki verið í góðu ástandi, en mér finnst hún mjög falleg og hún er enn með vetrarfeld þó að hún hafi verið felld í júní. Feldurinn er því enn fallegri og fyllri.“

  • Síðari hluti viðtalsins við Lene Zachariassen birtist á morgun