Líkhúsinu verður mjög líklega lokað
Allt stefnir í að líkhúsinu á Akureyri verði lokað í sumarbyrjun. Þetta staðfestir Smári Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar í samtali við Morgunblaðið í dag.
Líkhúsið var auglýst til sölu í nóvember á síðasta ári og þá brá mörgum í brún. Ástæðan var sú að að kirkjagarðarnir fá enga fjármuni til að reka líkhús og „okkur eru allar bjargir bannaðar til að afla tekna til að reka líkhús og athafnarými. Þess vegna er enginn annar kostur en að losa okkur frá þessum rekstri sem enginn vill kosta,“ sagði Smári við Akureyri.net eftir að húsið var auglýst til sölu.
- Umfjöllun Akureyri.net á síðasta ári: Langar þig til að eignast líkhúsið?
Heimilt að reka líkhús
Kirkjugarðar landsins hófu að rukka líkhúsgjald á sínum tíma en sú ákvörðun var kærð til umboðsmanns Alþingis sem úrskurðaði á þann veg að innheimta gjaldsins væri óheimil. Engin stoð væri fyrir því í lögum. „Opinber fyrirtæki mega ekki rukka neitt nema fyrir því sé lagastoð. Umboðsmaður sendi dómsmálaráðuneytinu úrskurðinn. Löggjafinn þyrfti að segja til um hvort rukka mætti gjald af þessu tagi eða ekki,“ sagði Smári í fyrra.
Smári sagði að enginn bæri ábyrgð á rekstri líkhúsa. „Frá því heilbrigðiskerfið gefur út dánarvottorð þar til kirkjugarður tekur við hinum látna er algjört gat í kerfinu; engum ber að sjá um ferlið frá dánarvottorði til greftrunar.“
Staðan er sem sagt sú að verði líkhúsinu lokað verður það verkefni aðstandenda að sjá um að geyma líkið einhvers staðar fram að greftrun.
Hægar en snigillinn
Enginn sýndi því áhuga að kaupa húsið til að reka þar óbreytta starfsemi. „Við erum búnir að vera í samskiptum við dómsmálaráðuneytið út af málinu og höfum verið það allt frá árinu 2011,“ segir Smári í Morgunblaðinu í dag og nefnir að fundað hafi verið með öllum dómsmálaráðherrum frá þeim tíma. „Það verður að segjast eins og er að stjórnsýslan í þessu máli gengur hægar en snigillinn,“ segir hann, en viðbrögð ráðuneytisins séu þau ein að verið sé að vinna í málinu.
Verði líkhúsinu á Akureyri lokað verður einungis eitt slíkt starfandi hér á landi, á vegum Kirkjugarða Reykjavíkur.