Lík þjóðskáldsins borið að heiman í kirkjugarð

SÖFNIN OKKAR – 63
Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _
Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.
Í Hagahverfi á Akureyri má finna götuna Matthíasarhaga. Gatan er nefnd eftir Matthíasi Jocumssyni skáldi, sem fæddist 11. nóvember 1835 á bænum Skógum í Þorskafirði. Hann bjó á Skógum hjá foreldrum sínum til 11 ára aldurs. Matthías stundaði síðan ýmis störf, aðallega sveitavinnu og sjómennsku en einnig verslunarstörf í Flatey.
Matthías þótti snemma bókhneigður en var kominn af almúgafólki sem hafði ekki efni á að mennta hann. Þegar hann var loks kostaður til náms við Lærða skólann (Latínuskólann) í Reykjavík var hann eldri en tíðkaðist á þeim tíma eða 24 ára gamall. Matthías útskrifaðist sem prestur 33 ára gamall og vígðist til prests á Kjalarnesi og bjó þá á Móum. Hann lét af embætti eftir að hafa misst tvær eiginkonur með skömmu millibili. Eftir það dvaldist hann erlendis um skeið en fyrir tilstilli vina sinna keypti hann blaðið Þjóðólf árið 1874 og var ritstjóri hans í 6 ár.
Matthías snéri sér aftur að prestskap 1880 og var fyrst í Odda á Rangárvöllum. Árið 1887 varð hann prestur Akureyringa og gegndi því embætti til ársloka 1899. Á Akureyri bjó hann í Aðalstræti 50 en síðar í Sigurhæðum, sem hann lét reisa. Eftir að hann fluttist til Akureyrar hlaut hann skáldalaun frá Alþingi til dauðadags en hann lést 18. nóvember 1920.
- Safngripur vikunnar er skjal sem varðveitt er í Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Þar er skráð fulltrúar hvaða félagasamtaka báru kisu þjóðskáldsins á útfarardaginn.
Í Sögu Akureyrar segir Jón Hjaltason að húskveðjan hafi farið fram úti undir berum himni og kistan hvílt á sérstökum palli við Sigurhæðir. Síðan hafi kistan verið borin niður brekkuna, suður Hafnarstræti og Aðalstræti inn í kirkjuna í Fjörunni.
Jón segir að aldrei fyrr hafi annað eins mannhaf fylgt Akureyringi til grafar og eru tölur á milli tólf og fimmtán hundruð. Það lætur nærri að helmingur bæjarbúa hafi fylgt séra Matthíasi.
4. Des. 1920. - Lík þjóðskáldsins síra Matthíasar Jochumssonar borið úr heimahúsum í Kirkjugarð.
_ _ _
Eftir Matthías liggja mörg ritverk og kvæði. 27 ára gamall og enn í skóla samdi hann Útilegumennina sem voru frumsýndir árið 1862. Endanleg gerð leikritsins kom út árið 1898 undir heitinu Skugga Sveinn. Hann samdi líka ljóðið Lofsöngur sem síðar var tekið upp sem þjóðsöngur Íslendinga. Matthías þýddi Friðþjófssögu og Sögur herlæknisins á íslensku.
Saga ein er til af Matthíasi og sögð af Árna Óla blaðamanni í bók sinni „Erill og ferlill blaðamanns“ Þar segir hann frá fyrstu og einu járnbrautarferðinni á Íslandi með eimvagninum sem flutti grjót ofan úr Öskjuhlíð í hafnargerðina í Reykjavík árið 1913. „Minnisstæðust er mér þessi ferð vegna þess, að Matthías Jochumsson skáld var þar með, og var hrókur alls fagnaðar á leiðinni. Hann hafði verið boðinn sem elsti blaðamaður Íslands, sem þá var uppi. Hann átti 78 ára afmæli daginn eftir.“
Að Skógum er minnismerki um Matthías, lágmynd eftir Helga Gíslason og bautasteinn úr stuðlabergi úr Vaðalfjöllum. Haustið 2006 kom út ævisaga hans „Upp á Sigurhæðir“ eftir Þórunni Valdimarsdóttur.