Fara í efni
Pistlar

Lífstíðareign

Foreldrar mínir áttu sömu frystikistuna í fjörutíu ár. Það eru ekki miklar líkur á að raftækin á mínu heimili afreki nokkuð slíkt. En lengi vel lifði ég í voninni. Fyrir 10-12 árum keypti ég Kindle-lesbretti og síðan þá hef ég reglulega haldið ræður um þetta snilldartæki sem ekkert þarf að hafa fyrir. Helstu kostir tækisins er einfaldleikinn. Það er enginn snertiskjár, engin baklýsing, það býður ekki upp á óendanlega skemmtilega og sniðuga möguleika enda var hugmyndin að líkja eftir bók.

Fyrir skemmstu fékk ég tölvupóst frá Amazon þess efnis að þessu módeli verði slaufað innan skamms. Vissulega geti ég lesið þær bækur sem eru inni á tækinu en ekki pantað nýjar. Það var ekkert sérstaklega hryggilegur tónn í þessum tölvupósti; þeir voru stoltir af því að bjóða mér inneign og afslátt af nýju bretti. Ég er hinsvegar seinþreyttur til innkaupa. Ég kaupi gamla, þokkalega bíla og keyri þá út. Ég kaupi sæmilega skó (Lloyds-skórnir eru að verða 20 ára) og rafmagnsrakvélar sem endast í 5-10 ár. Þegar hlutur gefur upp öndina geri ég heiðarlega tilraun til að senda hann í viðgerð, ef það er ekki í boði kaupi ég nýjan eða notaðan hlut með glöðu geði.

Ég ólst upp við sjónvarpsþáttinn Nýjustu tækni og vísindi þar sem reglulega var sagt frá fljúgandi bílum; þeir virtust alltaf vera rétt ókomnir. Það er ótal margt sem virðist rétt ókomið. Við teljum okkur trú um að hringrásarhagkerfið sé komið lengra en raunin er. Það er hægt að láta gera við raftæki og lengja líftíma þeirra, það er hægt koma símum í endurvinnslu en samt sem áður eru flest heimili með skúffu eða bastkörfu sem geyma síma og hleðslutæki frá síðustu 20 árum. Og rétt eins og Kindle-lesbrettið hefði flest þetta dót getað orðið lífstíðareign.

Í fæstum tilfellum kaupum við nýja hluti af brýnni nauðsyn. Við erum hins vegar hvött til að kaupa nýtt með þeim skilaboðum að gamla dótið sé úrelt og það nýja sé málið. Ef við viljum sýna aðhald og nýtni bíða okkar áskoranir; tæknilegar, fjárhagslegar og félagslegar. Tæknilegar eins og í tilfelli Kindle-lesbretttisins, fjárhagslegar eins og í tilfelli bilaðrar þvottavélar þar sem viðgerð kostar nánast það sama og ný vél, félagslegar þegar við skerum okkur úr með neysluvenjum sem stríða gegn norminu. Síðastnefndi þátturinn er lúmskur því umfram allt þá erum við félagsverur. Hversu margir myndu losna við yfirdráttinn ef þeir treystu sér til að gefa engar eða hóflegar jólagjafir?

Því fylgir góð tilfinning að fara vel með hluti og reyna að láta þá lifa sem lengst. Svo þegar dagar hlutarins eru taldir, eða við höfum ekki lengur þörf fyrir hann þá er sælt að gefa. Taktu þér nú smástund og hugsaðu málið. Getur verið að þú geymir farsíma síðustu tuttugu ára í skúffu eða bastkörfu ásamt hleðslutækjum? Er hugsanlegt að gamlar spjaldtölvur, fartölvur og aðrar græjur leynist inni í skáp eða uppi á hillu? Komdu þessu í gagnið, inn í hringrásina. Notaðu, seldu eða það sem væri enn betra gefðu þetta einhverjum sem á þarf að halda. Mér þætti gaman að heyra hvernig gekk. Hvað lumaðirðu á miklu dóti sem þú varst búin að gleyma og hvert rataði það á endanum? Endilega sendið mér línu á arnar30@gmail.com.

Arnar Már Arngrímsson er rithöfundur á Akureyri.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00