Fara í efni
Fréttir

Lifandi tónlist og fjör í Hlíðarfjalli um helgina

Myndir: Facebook síða Hlíðarfjalls

Von er á mikilli skíðahelgi í bænum, en á Facebook síðu Hlíðarfjalls er reiknað með góðum aðstæðum og slegið verður til veislu á laugardeginum. Þá verður boðið upp á lifandi tónlist í fjallinu en plötusnúðurinn Jon, öðru nafni DJ Ayobe, mun spila kl. 12-14 við Skíðastaði og færa sig síðan upp að Strýtuskála og spila þar kl. 14:30-16:30. Vetrarfrí eru í höfuðborginni, þannig að búast má við að einhverjir skelli sér jafnvel norður. 

Í tilkynningunni segir að veðrið fari kólnandi og jafnvel sé von á einhverri snjókomu. Aðstæður í fjallinu séu mjög fínar miðað við árferði, allar opnar leiðir með góðum snjó og 3,5 km og 1,2 km hringirnir í góðu standi á göngusvæðinu. Þó er varað við að að fara út fyrir opnar leiðir, þar sem hætta geti skapast vegna snjóleysis utan brauta.

Enn er takmörkuð opnun vegna snjóleysis, en á heimasíðu Hlíðarfjalls er gott að fylgjast með því hvaða leiðir og lyftur eru opnar. HÉR er tengill á síðuna, sem er reglulega uppfærð.

Opið er fyrir miðasölu í fjallið fram á sunnudag, en aðgangur verður í tveimur hollum yfir daginn. Hollin eru svona: Föstudagur 10-14:30 og 14:30-19. Laugardagur og sunnudagur: 9-13 og 13-17. Takmörkun hefur verið á miðafjölda í hverju holli, en starfsfólk hefur nýlega bætt við fyrir helgina, þannig að 1.000 miðar eru í boði í hverju holli. Hlíðarfjall býður 20% afslátt af miðum um þessar mundir vegna aðstæðna.