Fara í efni
Mannlíf

Lifandi starf og stöðug uppbygging

Adam, Haddi og Jóhanna ásamt krökkum sem útskrifuðust úr ABC skólanum árið 2024. Skólinn færir þeim fartölvu í útskriftargjöf sem Vodafone og Sýn gáfu til ABC í þessum tilgangi. Mynd: Úr einkasafni

ABC skólinn í Búrkína Fasó er rekinn af ABC barnahjálp, í gegnum styrki. Hjónin Jóhanna Sólrún Norðfjörð og Haraldur Pálsson, Haddi, eru framkvæmdastjórar skólans, en þau tóku formlega við árið 2023. Mikil fátækt sligar íbúa Búrkína, en ólæsi og lífsbarátta einkennir líf flestra sem búa í landinu. Jóhanna og Haddi buðu blaðamanni Akureyri.net að kynnast hjálparstarfinu, ásamt Adam Ásgeiri Óskarssyni sem er ötull liðsmaður og hefur meðal annars stórbætt tölvu- og tækniaðstöðu skólans undanfarin tvö ár.

Þetta er þriðji og síðasti hluti viðtalsins við Jóhönnu, Hadda og Adam.

Fjölbreytt skólastarf fyrir breiðan aldur í sífelldri uppbyggingu

„Opinbert tungumál Búrkína Fasó er franska, en landið var frönsk nýlenda til ársins 1960,“ segir Haddi. „Það er samt eiginlega bara menntafólk sem talar frönsku og talið er að það séu um það bil 70 tungumál töluð í landinu. Þegar börnin koma í skólann eru þau því oft á þeim stað að þau skilja ekki kennarana sína né hvert annað. Kennslan í skólanum fer fram á frönsku, þannig að forskólinn fer að stórum hluta í að kenna tungumálið og það var mjög jákvæð breyting að bæta þessum forskóla við, fyrir 4-5 ára krakka.“

 

Myndir úr forskólanum, fyrir 4-5 ára börn. Myndir: aðsendar

Til vinstri: Jóhanna situr með konunum við hnetusmjörsgerð. Til hægri: Adam og Haddi útveguðu logsuðuhjálma fyrir nemendur á vélabraut. Myndir: aðsendar

Við ABC skólann eru u.þ.b. 100 starfsmenn sem búa í nágrenninu. „Það er ekki bara hefðbundin kennsla sem við bjóðum uppá, en það er til dæmis boðið upp á mjög öflugt íþróttastarf í skólanum,“ segir Jóhanna. „Ungur heimamaður, Emmanuel, heldur utan um tónlistar- og íþróttastarf skólans. Hann fær svo þjálfara og það eru ýmsar íþróttagreinar sem eru æfðar.“ Jóhanna segir að starfsmenn skólans séu öll á launum. Svo er líka hópur af sjálfboðaliðum sem koma eftir vinnu dagsins og þjálfa t.d. íþróttir við skólann. 

Vaxandi aðgangur að tölvum, internetinu og símum

Adam hefur haft veg og vanda af því að sjá um að bæta tölvubúnað skólans. „Við vorum með mjög lélega örbylgjutengingu við skólann áður,“ segir Adam. „En fyrir rúmu ári síðan fengum við aðgang að gervihnattakerfinu Starlink, sem er í eigu Elon Musk. Núna erum við í alveg syngjandi internetsambandi. Því er samt ekki dreift um allt. Almennir nemendur hafa ekki aðgang að því nema í tölvustofunni.“ Símanotkun hefur færst aðeins í aukana og Jóhanna og Adam leggja bæði áherslu á að þau vilji skoða það vel, hvernig þau mál eigi að þróast á skólasvæðinu. „Við þurfum að búa til reglur um símanotkun, rétt eins og þarf að gera hérna heima.“

 

Til vinstri: Micheline hjúkrunarfræðingur sér um heilsugæsluna í ABC skólanum, þar sem börnin fá fría aðstoð. Til hægri: Jóhanna lærir jafnvægislist af vinkonum sínum í skólanum, en konur í Búrkína hafa í gegnum tíðina þurft að bera vatn úr brunnum um langar vegalengdir á höfðinu. Það er óþarfi í ABC skólanum, þar sem Haddi og Áveitan hafa tryggt aðgang að rennandi vatni. Myndir: aðsendar.

Ólíkar námsbrautir, bókasafn í pípunum og áframhaldandi uppbygging

„Það er á planinu núna, að byggja upp bókasafn með tölvuaðstöðu,“ segir Adam. „Í nýjasta hluta framhaldsskólans verðum við líka með skrifstofur fyrir kennarana, loksins, þar sem þau hafa aðstöðu til þess að undirbúa kennslu með tölvurnar að vopni. 

Það þarf að ná prófi til þess að útskrifast úr skólanum, en það hentar ekki öllum að stunda bóknám, ekki frekar en hérna á Íslandi. „Þegar Hinrik og Guðný Ragnhildur, stofnendur skólans tóku eftir því að mörg börn voru að falla ítrekað á prófunum og þurfa að taka lokaárið aftur og aftur, stofnuðu þau öðruvísi brautir,“ segir Jóhanna. „Það er saumabraut, vélabraut, sem er reyndar ekki núna vegna lítillar aðsóknar, en saumabrautin er vinsæl. Ef að krakkarnir eru búin að falla tvisvar á lokaprófi býðst að klára í gegn um saumadeildina. Sum velja að fara beint þangað vegna áhuga. Það er svo búið að ná því í gegn núna, að krakkarnir geta útskrifast sem klæðskerar, með réttindi til þess að taka að sér lærlinga. Svo fá þau saumavél að gjöf frá skólanum við útskrift.“ Adam segir frá því að þau sem útskrifist úr bóknáminu á framhaldsskólastigi og skrá sig í háskólanám, fái fartölvu frá skólanum að gjöf.

 

Krakkar á saumabrautinni gera skólabúningana fyrir nemendur ABC skólans. Myndir: aðsendar

Árið 2023 tóku Jóhanna og Haddi við stjórnun og rekstri skólans af stofnendunum, Hinriki og Guðnýju. Daglegur rekstur er þó í höndum Kadi Bambara, sem er framkvæmdastjóri á staðnum og býr í nálægð við skólann. „Þegar við förum til Búrkína, sem er sirka tvisvar á ári, fljúgum við til höfuðborgarinnar, gistum eina nótt og við tekur svo löng rútuferð til ABC skólans,“ segir Jóhanna. „Síðast tók ferðin 9 klukkustundir. Hitinn er líka þannig að það bókstaflega lekur af manni. Það er eins gott að gleyma ekki að drekka vatn, ég hef lent í því tvisvar að lenda í vökvatapi og þá er maður bara rúmliggjandi.“

 

Skólinn hefur stækkað hratt, en þegar Hinrik og Guðný stofnuðu hann árið 2008 voru nemendur 80 talsins. Í dag eru þau um 1.300. Í takt við vaxandi nemendafjölda hefur húsnæðið stækkað á áföngum og nýlega var lokið við aðra álmu framhaldsskólans. Báðar álmur hans sjást hér í baksýn, þar sem fótboltaæfing er í fullum gangi. Mynd: aðsend.

„Krakkarnir í skólanum hafa mjög gaman af því að setja upp allskonar sýningar þegar við komum,“ segir Haddi. „Þau eru mjög músíkölsk til dæmis, og setja upp skemmtileg tónlistaratriði. Auk þess eru oft íþróttasýningar.“ Skólaárið í ABC skólanum er frá október til júníloka, en hann er alfarið rekinn á styrkjum í gegnum ABC barnahjálp og gjöfum einstaklinga og fyrirtækja. Fyrirkomulagið er þannig, að hvert barn er með styrktaraðila á Íslandi, en á heimasíðu ABC er hægt að sjá þau börn sem ennþá vantar styrk. Á hverju hausti koma inn 60 nýir nemendur. Það kostar 3.800 kr. á mánuði að styrkja barn, en þegar sú upphæð er valin á heimasíðunni, er hægt að velja hvaða barn fær styrkinn. Hægt er að hafa samband ef fólk hefur spurningar varðandi styrkjakerfið. 

3.800 krónur á mánuði fyrir allt sem eitt barn þarf í skólann

„Fyrir þennan 3.800 kall, sem kostar að styrkja barn á mánuði,“ segir Jóhanna, „fær barnið kennslu, skólabúning, skólagögn, heita máltíð daglega, heilsugæsluþjónustu, íþrótta- og tónlistarkennslu og aðgang að tölvum.“ Jóhanna segir að staðan sé ágæt, en það vanti ennþá stuðningsaðila. „Í dag eru 35 börn sem vantar stuðning. Flest eru þau nýbyrjuð, fædd árið 2020. En nokkur, sem misst hafa sinn stuðning, eru eldri. Það er hægt að sjá mynd af þeim á heimasíðunni og velja að gerast stuðningsaðili fyrir þau.“

Þetta var þriðji og síðasti hluti viðtalsins við Jóhönnu, Hadda og Adam um ABC skólann í Búrkína Fasó. 


Upplýsingar um styrki til ABC skólans

Til þess að styrkja barn í ABC skólanum í Búrkína Fasó, er farið inn á heimasíðu ABC barnahjálpar. Þar er val um að styrkja um 3.800 kr. mánaðarlega eða 5.800 kr. mánaðarlega. 3.800 kr. er kostnaðurinn fyrir eitt barn í Búrkína Fasó - það fær kennslu, skólabúning, skólagögn, heita máltíð daglega, heilsugæsluþjónustu, íþrótta- og tónlistakennslu og aðgang að tölvum fyrir þann pening.
Einnig er hægt að styrkja með eingreiðslum eða með matargjöfum. Allar upplýsingar á heimasíðu ABC barnahjálpar.

Glaðir skáksnillingar eftir skólakeppni í skák. Mynd aðsend

 

Haddi og Jóhanna reka pípulagningarfyrirtækið Áveituna, en þau hafa gjörbreytt aðgangi skólans að rennandi vatni. Hér er nýji eldhúsvaskurinn. Að skrúfa frá krana og fá hreint vatn samstundis, er eitthvað sem er gulls ígildi eftir að hafa alla tíð þurft að ganga fleiri kílómetra til þess að sækja vatn í brunna. 

 

Draumar geta ræst. Jóhanna var bara stelpa þegar hún lét sig dreyma um hjálparstarf í Afríku. Í dag er hún framkvæmdastjóri ABC skólans, sem býður upp á menntun, öryggi og skjól fyrir 1.300 börn í einu fátækasta ríki heims, Búrkína Fasó. Mynd: facebook.