Fara í efni
Íþróttir

Lið KA/Þórs stefnir hraðbyri aftur upp

Hart var barist í dag. Aþena Eðvarðsdóttir (9) stöðvuð í hraðaupphlaupi með hraustlegri „tæklingu“ í fyrri hálfleik og vítakast var dæmt. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Stelpurnar í KA/Þór styrktu enn stöðu sína á toppi Grill 66 deildarinnar í handknattleik, næst efstu deild Íslandsmótsins, með öruggum sigri á Aftureldingu í dag, 31-22, og stefna hraðbyrði beint aftur upp í efstu deild, Olísdeildina. KA/Þór er með fjögurra stiga forskot á HK á toppi deildarinnar. 

Það var vel mætt og fín stemning í KA-heimilinu í dag þegar KA/Þór fékk lið Aftureldingar í heimsókn, en þessi lið hlutu bæði þau örlög í lok síðustu leiktíðar að falla niður í Grill 66 deildina. Fátt bendir til annars en að KA/Þór fari beint upp í Olísdeildina aftur, liðið var ósigrað í tíu leikjum í deildinni fyrir leikinn í dag og bætti 11. leiknum við.

Jónatan Magnússon þjálfari KA/Þórs leggur línurnar í einu leikhléanna í dag. Það sem hann lagði upp með gekk vel og KA/Þórs-stelpurnar unnu mjög öruggan sigur. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Leikurinn var jafn til að byrja með og gestirnir úr Mosfellsbænum með forystuna um tíma eftir tíu mínútna leik. Þegar leið á fyrri hálfleikinn náði KA/Þór yfirhöndinni og leiddi með fjórum mörkum í leikhléinu. Snemma í seinni hálfleiknum minnkaði Afturelding muninn í þrjú mörk, en komst aldrei nær en það. KA/Þór bætti svo smátt og smátt í forystuna út seinni hálfleikinn og vann að lokum öruggan níu marka sigur.

KA/Þór hefur unnið tíu leiki og gert eitt jafntefli, en er taplaust í deildinni og er í toppsætinu með 21 stig. HK er með 17 stig og Afturelding 15. Unnur Ómarsdóttir var markahæst í liði KA/Þórs með sjö mörk úr jafn mörgum skotum og Hulda Dagsdóttir í liði Aftureldingar með níu mörk. Matea Lonac varði frábærlega í marki KA/Þórs, alls 20 skot eða 47,6% þeirra skota sem hún fékk á sig.

Susanne Pettersen veður í gegnum vörn Aftureldingar í dag. Hún gerði fjögur mörk í leiknum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór

Mörk: Unnur Ómarsdótitr 7, Tinna Valgerður Gísladóttir 6, Lydía Gunnþórsdóttir 4, Susanne Pettersen 4, Kristín A. Jóhannsdóttir 3, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2 og Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir 2.
Varin skot: Matea Lonac 20 (47,6%), Sif Hallgrímsdóttir 1 (100%).
Refsimínútur 2.

Afturelding

Mörk: Hulda Dagsdóttir 9, Katrín Helga Davíðsdóttir 5, Fanney Ösp Finnsdóttir 4, Lovísa Líf Helenudóttir 2, Stefanía Ósk Engilbertsdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 5 (13,9%).
Refsimínútur: 2.

Öll tölfræði leiksins