Fara í efni
Fréttir

Lengsta stökk sögunnar og hárnákvæm vísindi – MYNDSKEIÐ

Skjáskot úr myndskeiði Red Bull

Orku­drykkja­fram­leiðand­inn Red Bull birti í gær magnað, rúm­lega átta mín­útna langt mynd­skeið á youtube þar sem fjallað er um ítarlegan og vísindalegan undirbúning flugs japanska skíðastökkv­ar­ann Ryoyu Kobayashi í Hlíðarfjalli fyrir skemmstu og stökk kappans vitaskuld sýnd frá öllum mögulegum sjónarhornum.

Sjón er sannarlega sögu ríkari!

Sérfræðingar á vegum Red Bull reiknuðu út á vísindalegan hátt hverjar aðstæður þyrftu að vera, leituðu síðan um allan heim að besta mögulega stað og fundu hann í Hlíðarfjalli eins og alþjóð veit! Verkfræðistofan Cowi (áður Mannvit) á Akureyri hannaði stökkpallinn og hvert smáatriði skipti máli eins og sést glögglega í þessu frábæra myndbandi.

Japaninn flaug lengst 291 metra í Hlíðarfjalli sem telst þó ekki formlegt heimsmet þar sem ekki var um að ræða hefðbundna keppni, viðurkennda af alþjóða skíðasambandinu heldur sérstakan viðburð fyrir einn stökkvara á vegum fyrirtækis en ekki íþróttasambands. Heimsmetið í skíðastökki er 253,5 metrar – en enginn efast um afrek Kobayashi í Hlíðarfjalli og að hann hafi stokkið lengst allra á skíðum.

Ævintýri Kobayashi er hluti auglýsingaherferðar Red Bull og óhætt að segja að slagorð drykkjaframleiðandans – Red Bull veitir vængi – eigi vel við: 

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ SJÁ MYNDBANDIÐ

Ryoyu Kobayashi lendir eftir lengsta stökkið í Hlíðarfjalli. Þá flaug hann 291 metra. Mynd: Þorgeir Baldursson

Skjáskot úr myndskeiði Red Bull