Leita upplýsinga vegna bifhjólaslyss
Lögreglan á Norðurlandi vestra auglýsti í morgun eftir upplýsingum um umferðarslys sem varð á þjóðvegi 1 um Langadal, skammt frá bænum Auðólfsstöðum, sunnudaginn 30. júní. Ökumaður bifhjóls slasaðist þá þegar bifreið var ekið fram úr bílalest sem kom á móti honum, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í sumar.
„Í þágu rannsóknar málsins óskar lögreglan eftir upplýsingum um bifreið sem ekið var í átt að Blönduósi, fram úr nokkrum bifreiðum, með þeim afleiðingum að ökumaður bifhjóls, sem ekið var úr gagnstæðri átt, í átt að Varmahlíð, slasaðist. Lögreglan óskar eftir að ná tali af ökumanni þeim sem ók fram úr bílaröðinni og/eða öðrum vegfarendum sem voru á ferðinni á umræddum tíma og veitt geta upplýsingar um atvikið,“ segir meðal annars í tilkynningu lögreglunnar.
Vitir þú eitthvað um málið má hafa samband við lögregluna á Norðurlandi vestra í síma 4440700 og/eða í gegnum netfangið nordurland.vestra@logreglan.is.