Fara í efni
Fréttir

Langar þig til að eignast líkhúsið?

Líkhúsið á Akureyri, við kirkjugarðinn á Naustahöfða, er auglýst til sölu eða leigu á Akureyri.net og í Morgunblaðinu í dag.

Hætt er við að mörgum hafi brugðið í brún við þessi tíðindi og einhverjir jafnvel snúið sér við í gröfinni.

Hvað er að tarna? Gera má ráð fyrir að flestir telji lögbundið að rekið sé líkhús því enginn hefur sloppið lifandi frá þessu jarðlífi svo vitað sé, og starfsemi líkhúsa því mikilvæg. Líklega nauðsynleg.

Heimilt að reka líkhús

„Nei,“ svarar Smári Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar, eiganda hússins, „það ber enginn ábyrgð á rekstri líkhúsa. Frá því heilbrigðiskerfið gefur út dánarvottorð þar til kirkjugarður tekur við hinum látna er algjört gat í kerfinu; engum ber að sjá um ferlið frá dánarvottorði til greftrunar.“

Smári segist auglýsa húsnæðið sem um ræðir til sölu eða leigu vegna þess að „við verðum að aðlaga okkur því rekstrumhverfi sem okkur er búið. Rekstur kirkjagarða snýst ekki um trúmál heldur um að taka grafir og hirða garðana. Það ber að grafa alla í grafreit eða kirkjugarði en síðan er kirkjugjörðum heimilt að reka líkhús.“

Engir fjármunir

Kirkjugarðarnir fá enga fjármuni til að reka líkhús og „okkur eru allar bjargir bannaðar til að afla tekna til að reka líkhús og athafnarými. Þess vegna er enginn annar kostur en að losa okkur frá þessum rekstri sem enginn vill kosta,“ segir Smári.

„Gert var samkomulag við ríkið árið 2005 þar sem aðferðafræðin við að skilgreina fjármuni til reksturs kirkjugarða var færð til nútímans. Við lögðum ofuráherslu á að líkhúsin yrðu tekin inn í þá mynd en á þessum tíma var einkavæðingin í blóma og stjórnvöld vildu ekki taka líkhúsin inn í dæmið. Notandinn ætti að greiða,“ segir Smári.

Uppsagnir og aðhald

Kirkjugarðar landsins hófu því að að rukka líkhúsgjald en sú ákvörðun var kærð til umboðsmanns Alþingis sem úrskurðaði á þann veg að innheimta gjaldsins væri óheimil. Engin stoð væri fyrir því í lögum. „Opinber fyrirtæki mega ekki rukka neitt nema fyrir því sé lagastoð. Umboðsmaður sendi dómsmálaráðuneytinu úrskurðinn. Löggjafinn þyrfti að segja til um hvort rukka mætti gjald af þessu tagi eða ekki. Umboðsmaður hefur í tvígang áréttað þetta við ráðuneytið en ekkert hefur gerst.“ 

Útfararþjónusta Kirkjugarða Akureyrar er einkahlutafélag í eigu Kirkjugarða Akureyrar. Það fyrirtæki mætti innheimta líkhúsgjöld svo fremi Útfararþjónustan ætti eða leigði líkhúsið, en Smári segir það algjörlega óraunhæft. Útfararþjónustan hefði aldrei bolmagn til þess. „Hún leigir hér skrifstofuhúsnæði og lifir á því að selja þjónustu sína, en við – kirkjugarðarnir – sitjum uppi með líkhúsið og athafnarýmin án þess að fá nokkurt fjármagn til rekstursins.“

Smári kveðst hafa skorið niður í rekstri kirkjugarðanna; hafi sagt upp 30% fastráðinna starfsmanna – tveimur mönnum, fækkað sumarstarfsmönnum og dregið úr viðhaldi.

„Ég hef í sjálfu sér ekkert að gera með þetta hús. Ég get auðveldlega fært skrifstofuna mína suður í áhaldahús kirkjugarðanna,“ segir Smári.

Kirkjugarðarnir fóru á hausinn

Hvorki dvalarheimili né sjúkrahús hafa aðstöðu til að reka líkhús. „Menn kunna þá að spyrja hvers vegna við vorum að byggja líkhús ef við vælum svo yfir því að geta ekki rekið það,“ segir Smári og heldur áfram:

„Margir muna eftir gamla líkhúsinu við spítalann á Akureyri. Það var barn síns tíma og var rifið. Samfélagið ákvað þá – sveitarfélagið, kirkjugarðarnir, dvalarheimilið og sjúkrahúsið – að taka að sér að reka líkhús og niðurstaðan var sú að  Kirkjugarðar Akureyrar legðu af stað í verkefnið enda áttu kirkjugarðar nóga peninga um 1990. Rekstrarumhverfið er hins vegar allt annað í dag.“

Smári rifjar upp að byggingin á Naustahöfða stóð auð í nokkur ár, á byggingatímanum hafi breyting orðið á fjárframlagi til reksturs kirkjugarða og Kirkjugarðar Akureyrar í raun farið á hausinn! „Við fengum lán með bæjarábyrgð til að ljúka við byggingu hússins.“

Smári segir vandamálið ekki snúa eingöngu að Akureyri og Reykavík, lang stærstu kirkjugörðunum, heldur þurfi að leysa málið á landsvísu. „Í öllum löndum Skandinavíu, sem við berum okkur gjarnan saman við, eru líkhús og líkbrennslur á einhvers konar opinberu forræði,“ segir hann aðspurður.

Tvö lítil, einkarekin líkhús eru í Reykjavík. Smári segir líkhúsið í Fossvogi gamalt og aðstaða þar sé slæm og því hafi tvær útfararstofur í borginni komið sér upp eigin líkhúsum. Þær mega að sjálfsögðu innheimta líkhúsgjald en „ríkisrekin fyrirtæki, eins og kirkjugarðarnir, mega það ekki á meðan lögum er ekki breytt.“