Fara í efni
Fréttir

Landsbankinn hefur verið á fjórum stöðum

Hafnarstræti 2 þar sem Landsbankinn var fyrst til húsa á Akureyri, frá 1902 til 1904.

Starfsemi Landsbankans á Akureyri verður flutt úr Strandgötu 1 í Hofsbót 2 og 4 á næsta ári, eins og Akureyri.net greindi frá í gær. Fréttin vakti að vonum mikla athygli enda byggði bankinn húsið 1954 og þar hefur starfsemin verið allar götur síðan – í tæp 70 ár.

Landsbankinn hefur þó ekki verið í húsinu fallega við Ráðhústorg allt frá því hann hóf starfsemi á Akureyri en reyndar í þremur húsum við torgið. Meðfylgjandi myndir eru af heimasíðu bankans.

  • Það var árið 1902 sem fyrsta útibú bankans var opnað í bænum og var þá í Hafnarstræti 2, sem er íbúðarhús í Innbænum.
  • Þvínæst – frá 1904 til 1931 – var útibú bankans í Hafnarstræti 107, þó ekki í húsinu sem nú ber það númer. Það stórhýsi byggði Útvegsbankinn 1954 og var lengi kennt við hann en þar eru nú m.a. skrifstofur Sýslumannsins á Norðurlandi eystra og Tryggingastofnunar ríkisins. Húsið sem þar var áður reistu árið 1897 þau Júlíus Sigurðsson bankastjóri og Ragnheiður Benediktsdóttir (systir Einars Benediktssonar, skálds og athafnamanns). Í því var Landsbankinn en húsið var flutt þegar Útvegsbankinn ákvað að byggja stórhýsi á lóðinni. Gamla Landsbankahúsið, Hafnarstræti 107, er nú íbúðarhúsið Ránargata 13.
  • Næsti viðkomustaður Landsbankans var Ráðhústorg 7a, þar sem nú er tískuvöruverslunin GB Gallery. Þar var bankinn frá 1931 til 1954, þegar starfseminn var flutt í húsið Ráðhústorg 1, sem bankinn byggði.

Smellið hér til að sjá frétt Akureyri.net í gær um flutning starfseminnar