Fara í efni
Fréttir

Landsbankinn flytur á nýjan stað

Unnið var að því síðdegis í gær að gera allt klárt á jarðhæð Hofsbótar 2 og 4, áður en útibú Landsbankans verður opnað þar í fyrramálið, á föstudagsmorgni. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Útibúi Landsbankans við Ráðhústorg á Akureyri var lokað klukkan 16 í dag að vanda en lokunin er þó ekki jafn hversdagsleg og venjulega. Hún er söguleg að því leyti að Landsbankamenn skelltu í dag í lás til frambúðar á þessum stað, þar sem bankinn hefur verið til húsa í liðlega sjö áratugi, síðan 1954.

Í fyrramálið, að morgni föstudags, verða starfsmenn bankans til þjónustu reiðubúnir á nýjum stað. Viðskiptavinir ættu ekki að verða í vandræðum með að rata á nýja staðinn því útibúið sem opnað verður á morgun er steinsnar frá hinu gamla; á jarðhæð Hofsbótar 4, húss sem risið hefur á síðustu misserum neðan við Nýja bíó, og í hluta jarðhæðar Hofsbótar 2, sem er sambyggt.

Stutt að fara! „Landsbankahúsið“ við Ráðhústorg er aðeins steinsnar frá nýja útibúi bankans. Mynd: Þorgeir Baldursson 

Bless! Sólveig Smáradóttir, starfsmaður Geimstofunnar, fjarlægir Landsbankamerkið af inngangi útibúsins við Ráðhústorg eftir lokun í dag. Mynd: Skapti

Inngangur í hið nýja útibú Landsbankans er á norðurhlið hússins. Mynd: Skapti

Arnar Páll Guðmundsson, útibússtjóri Landsbankans á Akureyri, á skrifstofu sinni á nýja staðnum. Mynd: Skapti

Arnar Páll Guðmundsson, útibússtjóri Landsbankans á Akureyri, segir starfsmenn mjög spennta fyrir flutningnum. Bankinn vilji vera og hafi verið miðbæjarbanki, bæði í Reykjavík og víðar, og verði áfram á Akureyri.
 
Bankinn hafði lengi vel yfir 2300 fermetrum að ráða við Ráðhústorg en nýja húsnæðið er 600 fermetrar. Starfsmenn Landsbankans á Akureyri eru um 30 og er útibúið þar stærsti vinnustaður bankans fyrir utan höfuðstöðvarnar. Á Akureyri er meðal annars sinnt miðlægri starfsemi sem þjónar öllu landinu; tæplega helmingur starfsmanna á Akureyri starfar í þjónustuveri og svarar erindum sem bankanum berast rafrænt eða í gegnum síma, frá viðskiptavinum hvar sem er á landinu.

 

Viðskiptavinir bankans munu ekki geta horft í gegnum þessi göt í fyrramálið heldur verða þar komnir hraðbankar, þeir þörfu þjónar. Mynd: Skapti

Landsbankinn byggði þetta glæsilega hús við Ráðhústorgið og þar hefur bankinn verið með starfsemi í rúm 70 ár, síðan 1954. Húsið er nú í eigu fjárfestingafélagsins Kaldbaks. Mynd: Skapti