Læknadeildir HÍ með inntökupróf á Akureyri

Háskóli Íslands (HÍ) mun í ár í fyrsta sinn bjóða upp á inntökupróf í læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði bæði í Reykjavík og á Akureyri. Prófin fara fram dagana 5. og 6. júní nk. Þetta kemur fram á vef HÍ í dag.
Inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði hafa verið haldin um langt árabil og umsækjendur um tannlæknisfræði þreyta nú sama próf í þriðja sinn.
„Til þess að koma betur til móts við nemendur víða um land sem hafa áhuga á að þreyta prófið hafa Læknadeild og Tannlæknadeild nú ákveðið að bjóða upp á inntökupróf á Akureyri í fyrsta sinn,“ segir í tilkynningu á vef HÍ í dag. „Það verður haldið í Háskólanum á Akureyri á sama tíma og umsækjendur þreyta prófið í Háskóla Íslands. Allir þátttakendur þreyta prófið í rafræna prófakerfinu Inspera og umsjón með prófunum á báðum stöðum verður í höndum prófaskrifstofu Háskóla Íslands.“
Að þessu sinni verða 75 umsækjendur teknir inn í læknisfræði og 40 í sjúkraþjálfunarfræði. Þá verður allt að 40 nemendum boðið að hefja nám í tannlæknisfræði í haust.
Sækja þarf um að þreyta inntökuprófið fyrir 20. maí en allar nánari upplýsingar um prófið er að finna á vefsíðu þess.