Fara í efni
Mannlíf

Laddi og Jón Gnarr hittast loksins – í Hofi!

Jón Gnarr og Laddi hafa aldrei hist, ótrúlegt en satt!

Fjörkálfarnir í hljómsveitinni Hvanndalsbræðrum endurtaka leikinn frá því í fyrra og stofna til skemmtikvölds – Fjörleikahúss – í Hofi um aðra helgi, laugardagskvöldið 21. september. Gestir þeirra að þessu sinni eru tveir af þekktustu grínistum landsins, Þórhallur Sigurðsson – Laddi, og Jón Gnarr.

Það er skemmtileg staðreynd að Laddi og Jón Gnarr hafa aldrei skemmt saman og það sem meira er, sem hljómar auðvitað eins og helber lygi: þeir hafa aldri hist! Sagan segir að Jón hafi í borgarstjóratíð sinni næstum því hitt Ladda einu sinni, því þá rakst æðsti embættismaður Reykjavíkurborgar á Eirík Fjalar, þann óborganlega skemmtikraft, en þeir sem til þekkja fullyrða að þegar Eiríkur kemur fram sé Laddi í raun ekki á staðnum; efnið sé það vissulega en ekki andinn, svo rækilega taki Eiríkur völdin.

Fjörleikahúsið í Hamraborg, stóra salnum í Hofi, verður því söguleg stund í ár og þeim Hvanndalsbræðrum líkt að standa fyrir íslenskum heimsviðburði af þessu tagi!

Sjónvarpsmaðurinn og grínistinn Gísli Einarsson var einn gesta Hvanndalsbræðra í Fjörleikahúsinu á síðasta ári. Hér vísar Gísli bræðrunum til vegar á sviðinu í Hofi. Mynd: Daníel Starrason.

Jón og Laddi hafa báðir gefið út talsvert af tónlist í gegnum tíðina, Jón með Fóstbræðrum, Tvíhöfða og fleirum og Laddi hefur komið við sögu á fjölmörgum plötum, bæði í eigin persónu og sem þeir fjölmörgu, frábæru karakterar sem hann hefur skapað og túlkað þá áratugi sem liðnir eru síðan hann skaust fram á sjónarsviðið.

Miðar eru seldir á vef Menningarfélags Akureyrar. „Síðast komust allir að sem vildu ...“ segir í tilkynningu þar, í anda bræðranna. Þegar Akureyri.net gáði áðan var eitt sæti óselt í sal en eitthvað er eftir af miðum uppi á svölum.