Menning
Kynnir rannsókn á tungumálslegu landslagi
24.10.2024 kl. 13:00
Martina Huhtamäki, kennari við Háskólann í Helsinki, heldur spennandi fyrirlestur í dag á vegum AkureyrarAkademíunnar þar sem hún kynnir rannsóknar sínar og Väinö Syrjälä á tungumálslega landslaginu á Akureyri, sem þau kalla svo. Þær beinast að því að skoða notkun tungumála „út frá samfélagslegu sjónarhorni.“
Kynningin í dag er hluti af Bakarís-fyrirlestraröð AkureyrarAkademíunnar og fer fram í Brauðgerðarhúsinu í verslunarmiðstöðinni við Sunnuhlíð og hefst kl. 16:00.
Skiltin skapa ímynd staðarins
Martina og eiginmaður hennar bjuggu á Akureyri um tíma. „Við áttum heima hér í tæplega fimm ár þegar maðurinn minn kenndi við háskólann. Ég var þá að vinna að rannsóknum,“ segir hún við Akureyri.net.
„Textar eru ekki bara í bókum og á netinu, á Akureyri er eins og annars staðar fullt af skiltum með textum, eins og búðarnöfn, götuskilti, auglýsingar og aðrar upplýsingar,“ segir í kynningu á fyrirlestrinum frá Akureyrar-Akademíunni. „Fyrir þá sem eru á ferðinni í bænum skiptir það máli á hvaða tungumáli skiltin eru. Eru skiltin á tungumáli sem fólk skilur? Að hverjum beinast skiltin og fyrir hverja eru skiltin? Hvaða hlutverk hafa ýmis tungumál á skiltum? Saman skapa öll skilti tiltekna ímynd staðarins.“
Martina Huhtamäki safnaði gögnum með því að taka ljósmyndir í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð vorið 2021 og í göngugötunni og á Ráðhústorgi á jólunum 2023. Í kynningunni segir hún stuttlega frá helstu rannsóknarniðurstöðum og ræðir um skiltin og hvað þau segja.
Mikilvægt að skoða víðar en í höfuðborgum
Í rannsókninni skoða þau Väinö hlutfall tungumála og hvaða hlutverk tungumálin hafa. „Ég myndi ekki segja að skilti á Akureyri séu öðruvísi en til dæmis einhverjum bæ í Finnlandi eða Þýskaland, eða hvar sem er í Evrópu; hér er mikið á íslensku, dálítið á ensku og smávegis af öðrum tungumálum,“ segir Martina.
„Fólk heldur kannski að það sé bara enska á skiltum á Akureyri og víðar á Íslandi, en það var miklu meiri íslenska en við bjuggumst við. Mér finnst mikilvægt að það komi fram. Svo virðist sem enskan sé ekki að taka yfir.“
Hún segir að þetta atriði hafi mikið verið skoðað í höfuðborgum víða um land, „en mér finnst líka mikilvægt að skoða þetta annars staðar en þar.“
Martina er dósent í sænsku og vinnur í Háskólanum í Helsinki. Hún er doktor í norrænum tungumálum og hefur m.a. rannsakað hljómfall í Finnlands-sænsku ásamt málslegu og öðru samspili í einkaþjálfun. Núna stýrir Martina verkefni um ensk tökuorð í norrænum tungumálum (PLIS). Hún bjó á Akureyri, sem fyrr segir, og vann að rannsóknum í AkureyrarAkademíunni á árunum 2017 til 2021.
- Bakarís-fyrirlestrarnir eru samstarfsverkefni AkureyrarAkademíunnar og Brauðgerðarhúss Akureyrar. Markmið þeirra er að kynna verkefni sem fólk hefur unnið að hjá AkAk, bjóða upp á viðburði í Sunnuhlíð og gefa bæjarbúum tækifæri til að fræðast og spjalla um fjölbreytt viðfangsefni.