Fara í efni
Mannlíf

Kynnir ferðahandbók um Costa Blanca svæðið

Akureyrski rithöfundurinn Snæfríður Ingadóttir sem sendi nýlega frá sér nýja ferðahandbók um Costa Blanca svæðið á Spáni – Hvítu ströndina – mun kynna bókina á Hótel Kea á sunnudaginn. Þar fer þá fram fasteignakynning Novus Habitat.

Þetta er þriðja ferðahandbók Snæfríðar um vinsælustu sólaráfangastaði Íslendinga en áður hefur hún skrifað handbækur um Tenerife og Gran Canaria. Nú lokar hún hringnum með bókinni Costa Blanca Lifa og njóta. „Niceair er að hefja flug til Alicante í apríl svo þessi bók kemur aldeilis á réttum tíma fyrir þá Norðlendinga sem hyggjast nýta sér það flug og vilja kynnast Costa Blanca svæðinu enn betur.

Þar er margt skemmtilegt að sjá og skoða – ekki bara sól og golfvellir. Þá er svæðið afar hentugt fyrir fjölskyldufólk því fjölbreyttir skemmtigarðar eru á svæðinu og góðar strendur,“ segir Snæfríður.

Eins og í fyrri ferðahandbókum Snæfríðar bendir hún á ýmsa áhugaverða staði sem gaman er að skoða, stingur upp á gönguleiðum, bendir á mat sem nauðsynlegt er að smakka og gefur hugmyndir af fjölskyldufjöri.

Sem fyrr segir kynnir Snæfríður bókina á fasteignakynningu Novus Habitat á Hótel KEA á sunnudaginn, 12. febrúar. Kynningin verður frá kl. 13.00 til 17.00. Novus Habitat selur eignir bæði á Tenerife og á Costa Blanca svæðinu. „Við fjölskyldan vorum sjálf að festa kaup á eign úti og mér finnst eins og þeir sem stíga þetta skref segi flestir að þeir hafi óskað að þeir hefðu gert það miklu fyrr,“ segir Snæfríður sem mun bjóða handbókina á tilboðsverði á staðnum.

Hér má sjá nánari upplýsingar um bókina.