Fara í efni
Fréttir

Kynningarátak SAk skilar árangri í ráðningum

Skjáskot úr einu af þeim myndböndum sem Sjúkrahúsið á Akureyri hefur látið gera sem hluta af átakinu Komdu í lið með okkur!

Átaksverkefnið Komdu í lið með okkur sem mannauðssvið Sjúkrahússins á Akureyri hleypti af stokkunum í vor hefur vakið nokkra athygli og skilað árangri í ráðningum í stöður.

Verkefnið er hluti af umfangsmeiri aðgerðaáætlun sem varð til innan mannauðssviðs SAk, meðal annars til að bregðast við eftirköstum álags og breytinga sem urðu á starfseminni og verkefnum heilbrigðisstarfsfólks í heimsfaraldrinum, en einnig sem tæki í því stöðuga verkefni og áskorunum sem mönnun heilbrigðisstofnunar er.

„Frá því að aðgerðaáætlun vorsins var sett af stað má sjá talsverðan árangur, sérstaklega á meðal hjúkrunarfræðinga, en okkur hefur tekist að laða að og fylla í um tíu stöður frá vori sem verður að teljast frábær árangur. Betur má ef duga skal, mönnun í heilbrigðiskerfinu verður alltaf áskorun en við fögnum öllum sigrum, stórum sem smáum,“ segir Erla Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs SAk.

Skjáskot af hluta þeirra myndbanda sem nú eru aðgengileg á YouTube-rás sjúkrahússins.

Áskoranir við að manna stöður er eitt af því sem mannauðssvið heilbrigðisstofnana glíma við og má ráða af umræðu og fréttaflutningi að þær hafi orðið erfiðari eftir heimsfaraldurinn. Spurningar vakna hvort og þá hvernig hefur reynst erfiðara að ráða í stöður eftir heimsfaraldurinn og þá einnig hvort til eru upplýsingar um fjölda heilbrigðisstarfsmanna sem hætt hafa störfum eftir og þá mögulega einnig vegna faraldursins.

Miklar breytingar á verkefnum í faraldrinum

Án þess að hér sé ætlunin að rifja heimsfaraldurinn upp sérstaklega eða ítarlega er vert að hafa í huga, eins og Erla bendir á, að meðan á honum stóð lagðist heilbrigðisstarfsfólk á eitt og sýndi heilbrigðiskerfið sannarlega hversu máttugt það er. Starfsfólkið hafi unnið mikið og verið undir miklu álagi, þurft að starfa á annarri deild en sinni heimadeild, breyta hafi þurft miklu í verklagi og fólk þurft að aðlagast hratt og nánast daglega komið nýjar áskoranir. „Samvinnan var mikil og einhugur í starfsfólki að komast yfir hvern hjallann sem á vegi þess varð,“ segir Erla.


Störf á sjúkrahúsi eru fjölbreytt. Mynd af Facebook-síðunni Störf á sjúkrahúsinu á Akureyri.

Verkefnin minnkuðu ekki og þeim fækkaði ekki þó heimsfaraldrinum hafi lokið því á meðan á honum stóð beið fjöldi fólks eftir þjónustu og biðlistar lengdust. Verkefni heilbrigðisstarfsfólks eru því áfram ærin og er SAk þar ekki undanskilið. Ofan á það bætast svo verkefni sem fylgja hinni gríðarlegu fjölgun ferðamanna sem hingað streyma og nefnir Erla komur skemmtiferðaskipa til Akureyrar sem dæmi um áskoranir sem fylgja þeirri aukningu.

Töluverð aukning langtímaveikinda eftir heimsfaraldur

Erla segir erfitt að alhæfa um hvort heimsfaraldurinn eða aðrar orsakir hafi valdið uppsögnum hjá starfsfólki SAk, auk þess sem ekki sé haldið sérstaklega utan um uppsagnir vegna faraldursins.

„Það er þó áhugavert að rýna starfsemistölurnar og má sjá áberandi aukningu á veikindahlutfalli starfsfólks eftir heimsfaraldur. Árið 2022 var veikindahlutfall að meðaltali um 6%, en eftir heimsfaraldur eða síðustu tvö ár hefur veikindahlutfallið hækkað um 2% og er nú 8,4%,“ segir Erla um þetta viðfangsefni. Hún segir helst hafa orðið aukningu á skammtímaveikindum árið 2022, en þau hafi á undanförnum árum verið 3-3,5% og aukist í 5,4% árið 2022. Jafnvægi hefur náðst í skammtímaveikindum á yfirstandandi ári, en langtímaveikindi hafa aukist töluvert, að sögn Erlu, og það skýri helst hækkun veikindahlutfallsins þar sem langtímaveikindi hafi aukist um 2% frá 2021 og eru nú 4,8%. „Það er því okkar stóra verkefni að ná veikindahlutfalli niður og hlúa að mannauðnum.“


Framkvæmdastjórn Sjúkrahússins á Akureyri. Erla Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs, er lengst til hægri. Mynd: SAk.

Áskoranir í mannaráðningum

Erla segir skiljanlegt að með auknu veikindahlutfalli og auknum þjónustukröfum verði áskoranir hvað mönnun og ráðningar varðar töluvert miklar og enn meiri en fyrir heimsfaraldur. „Einna helst var erfitt að manna stöður hjúkrunarfræðinga, hvort sem um var að ræða vegna veikinda eða stöður sem voru lausar og ekki hafði tekist að ráða í. Þá vantar einnig í stöður sérfræðilækna á ákveðnum sviðum, lífeindafræðinga og sjúkraþjálfara,“ segir Erla. Hún segir í heildina hafa verið áberandi erfiðast að manna stöður hjúkrunarfræðinga utan einstaka viðkvæmra vaktlína sérfræðilækna. Veikindahlutfallið hjá hjúkrunarfræðingum hafi hækkað til muna og ekki hafi tekist að ráða í allar stöður. „Á vorönn 2023 vantaði um 25 stöðugildi hjúkrunarfræðinga á SAk og eins og gefur að skilja krafðist það mikillar útsjónarsemi deildarstjóra og kallaði á margar aukavaktir á þeim deildum þar sem undirmönnun var sem mest, en það hafði síðan mikil áhrif á álag og ákveðinn vítahringur myndaðist,“ segir Erla.

Aðgerðaáætlun sett í gang

Ljóst var að bregðast þurfti við þessari stöðu og fól framkvæmdastjórn framkvæmdastjóra mannauðssviðs og framkvæmdastjóra hjúkrunar að greina betur þá stöðu sem hér hefur verið lýst og koma með tillögur að aðgerðum. Sett var saman aðgerðaáætlun í mörgum liðum og aðgerðum komið af stað með það að markmiði að snúa þróuninni við og finna leiðir til að hlúa betur að mannauði sjúkrahússins.

Helstu liðir aðgerðaáætlunarinnar voru:

  • Sett var af stað Velferðartorg þar sem starfsfólk getur valið milli fjölmargra fagaðila og getur hver starfsmaður sótt þrjá tíma á kostnað SAk
  • Farið var í ráðningar á starfsfólki í aðstoð sem starfar þvert á deildir spítalans
  • Lyfjaþjónusta út á klínískar deildir var aukin
  • Ráðist var í tækjakaup og lögð áhersla á kaup á tækjum er sérstaklega gátu létt undir með klínísku starfsfólki
  • Stöðugildi félagsráðgjafa aukin
  • Ráðningar á erlendum hjúkrunarfræðingum og læknum
  • Kynningarstarf til nemenda, bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi, var aukið
  • Sjúkrahúsprestur var ráðinn sem getur létt heilmikið undir með klínísku starfsfólki
  • Stuðningur var aukinn við stjórnendur hvað varðar ráðningar
  • Stuðningur var aukinn við starfsfólk í langtímaveikindum
  • Öllum auglýsingum á SAk breytt með það að markmiði að tengja þær betur mannauðnum og ákveðið var að fara í verkefnið Komdu í lið með okkur! auk margra annarra verkefna

Dæmi um einföldun á framsetningu atvinnuauglýsinga.

Komdu í lið með okkur!

Síðasti liðurinn í upptalningunni hér að ofan vakti einmitt athygli blaðamanns, myndbönd með kynningum á störfum og starfsgreinum innan sjúkrahússins, ásamt því að starfsauglýsingar fóru að birtast á erlendum tungumálum. Breytt yfirbragð á starfsauglýsingum var líka hluti af átakinu.

„Ákveðið var að tengja allar auglýsingar á SAk við mannauðinn, stytta texta auglýsinganna, skreyta með myndrænum hætti og nota samfélagsmiðla meira en áður hefur verið gert. Þar sem undirmönnun var áberandi mest meðal hjúkrunarfræðinga var ákveðið að fara í kynningarherferð sem hafði það að markmiði að sýna hversu fjölbreytt störf hjúkrunarfræðinga eru innan SAk og sýna hversu áhugaverður vinnustaðurinn SAk er,“ segir Erla.

Hún segir næstu skref vera að fá alla til að taka þátt, bæði starfsfólk og samfélagið. „Það er mikilvægt að fá alla í lið með okkur til þess að mæta þessum krefjandi aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðiskerfinu, því markmið okkar allra er að við getum veitt framúrskarandi þjónustu til íbúa okkar svæðis. Við viljum fá gott fólk í okkar lið og teljum okkur geta boðið upp á faglegan vinnustað og samstarfsfólk með hjartað á réttum stað. Við hlökkum mikið til að fá að halda verkefninu áfram og vonumst til þess að verkefnið Komdu í lið með okkur! fái mikla athygli og fangi augu sem flestra sem eru að huga að námi í heilbrigðisgeiranum og/eða hafa áhuga á að koma til starfa á Sjúkrahúsinu á Akureyri,“ segir Erla.

Mikil þátttökugleði og áhugi innanhúss

Myndbandaverkefnið er raunar enn að slíta barnsskónum enda hafa myndböndin aðeins verið í kynningu í nokkrar vikur. Fyrsta myndbandið var birt á ársfundi sjúkrahússins í september og vakti þar mikla lukku. Myndböndin hafa nú öll verið sett í birtingu á samfélagsmiðlum og eru aðgengileg á YouTube-rás SAk.

Það hefur reynst auðvelt að fá starfsfólk sjúkrahússins með í þetta verkefni. „Það var ótrúlega gaman að finna þátttökugleðina og áhugann fyrir þessu verkefni hér innanhúss. Deildirnar voru boðnar og búnar að fá teymið í heimsókn og sýna frá því frábæra starfi sem hér fer fram. Í raun komust færri að en vildu og því þurfum við bara að huga að næstu framleiðslu með fleiri starfsstéttum,” segir Erla Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Sjúkrahússins á Akureyri.