Fara í efni
Mannlíf

Kvöldverður frá Nielsen og Omnom á LYST

Kári Þorsteinsson matreiðslumeistari og eigandi veitingastaðarins Nielsen á Egilssöðum.

Kári Þorsteinsson, matreiðslumeistari og eigandi veitingastaðarins Nielsen á Egilsstöðum, og Kjartan Gíslason hjá Omnom, verða gestir í eldhúsi LYST í Lystigarðinum um helgina. Þar hefur vertinn Reynir Gretarsson auglýst fimm rétta veislu í tilefni konudagsins og sér sjálfur um að para vín með réttunum.

Þessi kvöldverður gestanna verður í boði bæði föstudags- og laugardagskvöld.

„Þegar svona tækifæri býðst og ég hef möguleika á að fara er ekki hægt að sleppa því,“ sagði Kári þegar Akureyri.net sló á þráðinn til hans í vikunni. Hann hlakkar til. „Við höfum reynt að gera þetta hér fyrir austan, að fá kokka frá veitingastöðum annars staðar á landinu til að auka fjölbreytni á landsbyggðarmarkaðnum.“ Hann segir gaman að bjóða upp á krydd sem þetta í tilveruna.

Réttir af seðli Nielsen

Nielsen, sá magnaði og vinsæli veitingastaður, var opnaður á Egilsstöðum 2019 og þar á bæ er einblínt á íslensk hráefni. „Á kvöldseðlinum er bara íslenskt hráefni, og við nýtum að sjálfsögðu allt sem við getum af Héraði, en á hádegisseðlinum verðum við að teygja okkur aðeins,“ segir Kári.

Á LYST býður Kári upp á þrjá rétti af matseðli Nielsen, þar af tvo sem hafa verið á boðstólum frá upphafi:

  • Tómatar, jarðarber og gamaldags skyr framleitt á Egilsstöðum
  • Pönnusteiktur þorskur með hvítkáli í smjör- og skyrmysusósu, af skyrinu sem áður var nefnt, og hvönn 
  • Langtíma elduð nautakinn, grænmeti og reykt nautafita

Kjartan hjá Omnom býður síðan upp á tvo eftirrétti:

  • Ferskt súkkulaði og sýrður rjómi
  • Súkkulaði, lakkrís, hindber

Nánar hér um dinnerinn á LYST

Þarf að vera áskorun

Kári Þorsteinsson segir Íslendinga í auknum mæli hafa áhuga á innlendu hráefni, ekki síst úr héraði á hverjum stað. „Mér finnst gott að geta sýnt að það er gerlegt að bjóða upp matseðla eingöngu úr íslensku hráefni. Það er krefjandi en heldur manni á tánum, sem er gaman.  Ég hef verið í þessu starfi í 20 ár og það verður að vera einhver áskorun! Mður þarf sífellt að hugsa um hvað sé hægt að gera frekar en að nota hráefni sem alltaf er hægt að kaupa  úti í búð og jafnvel er búið að flytja yfir hálfan hnöttinn,“ segir hann.

Þá hafa útlendingar mikinn áhuga á íslenskum mat, segir Kári   „að sjálfsögðu. Það er fallegt og rómantískt að nota íslenskt hráefni, og umhverfisvænna auðvitað. Við á Nielsen eru til dæmis búin að stimpla okkur þannig að við notum íslenskt hráefni og útlendingum finnst það mjög spennandi. Fólk kemur ekki til Íslands til að borða passion fruit sem sem flutt hefur verið um langan veg, svo ég nefni dæmi.“

https://www.facebook.com/LYST.Lystigardurinn