Fara í efni
Íþróttir

Kvennalið Þórs í undanúrslit bikarsins

Fagnað í leikslok, Þórsstelpurnar eru á leið í undanúrslitaleik VÍS-bikarsins 19. mars. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Kvennalið Þórs í körfuknattleik tryggði sér fyrr í dag sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar, VÍS-bikarsins, annað árið í röð. Þórsstelpurnar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu topplið Bónusdeildarinnar, Hauka, með sjö stiga mun, 94-87.

Þórsliðið byrjaði leikinn betur, dyggilega stutt af fjölmörgum stuðningsmönnum sem létu vel í sér heyra, komust í 11-7 og héldu forystunni nær allan fyrsta leikhluta, nema hvað Haukar komust tveim stigum yfir þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum. Þegar upp var staðið var það í eina skiptið í leiknum sem Haukar leiddu. Þórsliðið hélt svo forskotinu út leikhlutann og leiddi með fimm stigum að honum loknum.

Innileg sigurgleði í leikslok. Esther Fokke lyftir Amandine Toi í fögnuðinum og Natalia Lalic og Maddie Sutton fagna fyrir aftan þær. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Öflugt áhlaup og 18 stiga forysta

Byrjunin í öðrum leikhluta var frábær, Þór skoraði níu fyrstu stigin og þristunum raðað niður í framhaldinu, forystan varð mest 18 stig, 44-26, þegar aðeins tvær og hálf mínúta var liðin af leikhlutanum! Þórsliðið skoraði þá 17 stig gegn fjórum og virtist ætla að kafsigla Hauka strax í fyrri hálfleik. Þá leist þjálfara Hauka ekki á blikuna og tók leikhlé. Haukar náðu svo að saxa nokkuð á þetta forskot þegar leið á fyrri hálfleikinn, en forystan þó 11 stig þegar liðin gengu til búningsklefa.

Leikurinn hélt svo áfram á svipuðum nótum í seinni hálfleik, Þórsstelpurnar keyrðu leikinn í gang af krafti og juku forskotið í 16 stig þegar leið á þriðja leikhlutann, en munurinn 13 stig fyrir lokafjórðunginn.

Emma Karólína Snæbjarnardóttir, ein af efnilegustu körfuboltakonum landsins, í leiknum í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Haukar gáfust ekki upp

Haukar eru með gott lið, ekki síður en Þórsarar, og neituðu að gefast upp. Eðlilega fór að gæta þreytu hjá fámennu Þórsliðinu og misheppnaðar sóknir gáfu gestunum tækifæri til að saxa á forskotið. Smátt og smátt nálguðust Haukarnir og stuðningsfólki Þórs var orðið órótt, en þá er bara að standa saman og gefa í. 

Þannig gekk nánast allur fjórði leikhlutinn, munurinn kominn niður fyrir tíu stig og enn sjö og hálf mínúta eftir. Um miðjan lokafjórðunginn höfðu Haukar minnkað forskotið niður í tvö stig og áttu raunar möguleika á að komast yfir. Haukar fengu tvö víti í stöðunni 84-82, en nýttu aðeins annað þeirra, munurinn eitt stig, en þá sögðu Þórsarar innan og utan vallar stopp. Esther Fokke setti niður þrist þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir og þá var eins og neistinn kviknaði að nýju, stúkan kallaði fram síðasta orkudropann í leikmönnum og þær náðu að halda 5-7 stiga mun út leikinn við gífurlegan fögnuð þeirra rúmlega 200 áhorfenda, eða stuðningsmanna öllu heldur, sem mættu í veisluna í Höllinni í dag. Ekki mátti þó miklu muna að Haukum tækist að komast aftur í færi til að jafna á lokamínútunni. 

Maddie Sutton var einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu í dag, skoraði 16 stig, tók 13 fráköst og átti níu stoðsendingar. Fyrrum liðfélagi hennar í Þór, Lore Devos, fylgist hér með Maddie skora. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Fjölhæft lið og jafnt stigaskor

Það segir kannski allt um styrkleika og fjölhæfni Þórsliðsins að á einum tímapunkti seint í leiknum voru fjórar jafnstigahæstar í liðinu með 16 stig hver og þegar upp var staðið skoruðu fimm leikmenn á bilinu 13-21 stig í leiknum. Segja má að það rími vel við það sem þær Esther Fokke og Amandine Toi nefndu í viðtali við Akureyri.net í gær, fjölhæft lið og alltaf einhver sem tekur af skarið og skorar þegar á þarf að halda. Hjá Haukum var það fyrrverandi leikmaður Þórs, Lore Devos, sem skoraði mest, 23 stig.

Frábær sigur í uppgjöri tveggja bestu liða landsins og annað árið í röð leiðir Daníel Andri Halldórsson þjálfari lið sitt inn í bikarvikuna og undanúrslitaleikinn sem fram fer í Smáranum miðvikudaginn 19. mars. Þegar þetta er ritað er ljóst að Njarðvíkingar og Grindvíkingar verða þar einnig. Njarðvík vann Tindastól með sjö stiga mun og Grindavík vann Stjörnuna með tveggja stiga mun í dag. Fjórða liðið í bikarævintýrinu verður svo annaðhvort Hamar/Þór eða Ármann, sem mætast á morgun og eins skondið og það er þá verður það eini leikurinn í bikarkeppninni sem leikinn er í Laugardalshöllinni, en hún er heimavöllur Ármanns.

Stelpurnar í Þórsliðinu eru vinsælar á meðal ungviðisins í félaginu og iðulega koma ungir iðkendur hlaupandi inn á völlinn til að fagna sigri með liðinu. Tilefnin til þess hafa verið ansi mörg í vetur enda liðið ósigrað í Höllinni. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

  • Gangur leiksins: Þór - Haukar (27-22) (25-19) 52-41 (25-23) (17-23) 94-87 
  • Byrjunarlið Þórs: Amandine Toi, Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Esther Fokke, Eva Wium Elíasdóttir, Maddie Sutton.
  • Ítarleg tölfræði leiksins

Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Esther Fokke 21 - 3 - 6
  • Amandine Toi 21 - 3 - 4
  • Eva Wium Elíasdóttir 17 - 2 - 1
  • Maddie Sutton 16 - 13 33 framlagsstig
  • Natalia Lalic 13 - 4 - 1
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 6 - 2 - 0

Fagnað í stúkunni eftir sigurinn í dag, eins og svo oft áður. Leikmenn Þórs nefna oft mikilvægi stuðningsins úr stúkunni í viðtölum. Mynd: Skapti Hallgrímsson.