Kvennalið SA í íshokkí áfram á sigurbraut
Kvennalið Skautafélags Akureyrrar í íshokkí vann góðan útisigur á Fjölni í Egilshöllinni í dag og trónir enn á toppi Hertz-deildarinnar. SA-konur hafa raunar þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og þar með heimaleikjaréttinn í úrslitarimmunni sem hefst í byrjun mars.
SA náði forystunni strax á upphafsmínútum og bætti við öðru marki undir lok fyrsta leikhluta. Þriðja markið kom um miðjan annan leikhluta, en það var ekki fyrr en á lokamínútu leikhlutans sem heimakonur í Fjölni skoruðu sitt fyrsta mark. Strax í upphafi þriðja leikhluta kom fjórða mark SA-kvenna sem sigldu sigrinum í höfn, en Fjölnir klóraði í bakkann með marki á lokamínútu leiksins.
Silvía Rán Björgvinsdóttir var sem oftast fyrr atkvæðamest í liði SA, skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu. Shawlee Gaudreault var með 92% markvörslu, varði 23 skot.
Fjölnir - SA 2-4 (0-2, 1-1, 1-1)
- 0-1 Sveindís Marý Sveinsdóttir (01:33). Stoðsending: Védís Valdemarsdóttir, Jónína Guðbjartsdóttir.
- 0-2 María Eiríksdóttir (17:59). Stoðsending: Silvía Rán Björgvinsdóttir, Eva Karvelsdóttir.
- 0-3 Silvía Rán Björgvinsdóttir (29:43). Stoðsending: Sólrún Assa Arnardóttir.
- 1-3 Guðrún Marín Viðarsdóttir (39:15). Stoðsending: Laura Murphy.
- 1-4 Silvía Rán Björgvinsdóttir (41:04).
- 2-4 Sigrún Árnadóttir (59:35). Stoðsending: Stefanía Ósk Elísabethardóttir.
Helstu atvik - sjá hér.
Ítarlega er fjallað um leikinn með viðtölum, meðal annars við Silvíu Rán Björgvinsdóttur, spilandi þjálfara SA og stigahæsta leikmann deildarinnar, á hokkívefnum ishokki.is - sjá hér.
SA-konur eru langefstar í deildinni, hafa unnið 10 af 11 leikjum sínum og eru með 30 stig. Fjölnir er með 15 og SR án stiga.
Leiknum var streymt á YouTube-rás Fjölnis og upptakan aðgengileg þar.