Fara í efni
Íþróttir

Kvenna- og karlalið SA hefja leik í dag

Andri Már Mikaelsson og Herborg Rut Geirsdóttir hampa bikurum. Því miður eru þetta ekki alveg nýjar myndir því báðir þessir bikarar eru geymdir í Reykjavík um þessar mundir. Eflaust vilja SA-liðin gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ná þeim aftur norður. Myndir: Skapti Hallgrímsson.

Íslandsmótið í íshokki karla og kvenna hófst fyrir nokkrum dögum, en Akureyrarliðin hefja leik í dag. Bæði lið SA mæta liðum Fjölnis í Egilshöllinni.

Sú breyting hefur verið gerð á leikjafyrirkomulagi á Íslandsmótinu að mun oftar en áður verða svokallaðir tvíhöfðar, það er að bæði lið hvers félags mæta sömu andstæðingum á sama degi. Þannig verða fleiri heimaleikir liða Skautafélags Akureyrar á laugardögum en verið hefur, en færri í miðri viku. Fyrstu heimaleikir beggja liða SA verða laugardaginn 28. september þegar bæði lið SR koma norður.

Í frétt á vef Skautafélagsins kemur fram að Kanadamaðurinn Sheldon Reasbeck, nýr þjálfari karla- og kvennaliðs SA, hafi unnið að því hörðum höndum á undanförnum dögum að koma sínu handbragði á liðin. Hann hefur þó aðeins haft tvær vikur með liðunum til þessa og áherslubreytingar verði því eflaust áþreifanlegri eftir því sem líður á tímabilið. Atli Þór Sveinsson verður áfram í þjálfarateymi kvennaliðsins, en hann þykir hafa sannað sig vel í því starfi og einbeitir sér áfram að varnarmönnum liðsins. 


Kanadamaðurinn Sheldon Reasbeck þjálfar bæði hokkílið SA í vetur. Hann er nýkominn til starfa og vinnur hörðum höndum að því að koma handbragði sínu á leik liðanna. Mynd: sasport.is.

Kvennadeildin jafnari en áður?

Búast má við jafnara móti í Hertz-deild kvenna nú en undanfarin ár. Til að mynda gengu þrjár sterkar hokkíkonur til liðs við Skautafélag Reykjavíkur fyrir tímabilið, allar upphaflega úr röðum SA. Fyrirliði SA, Ragnhildur Kjartansdóttir, fer í Laugardaglinn. Það gera einnig þær Inga Rakel Aradóttir, sem spilaði í Danmörku á síðasta tímabili, og Gunnborg Petra Jóhannsdóttir, sem spilaði í Svíþjóð. Nokkrar af öflugustu hokkíkonunum í Fjölni koma einnig að norðan og áttu stóran þátt í að ná titlinum af SA í vor. Það má því búast við því að lykilleikmenn beggja sunnanliðanna, Fjölnis og SR, komi að norðan.


Þrjár norðankonur sem munu styrkja lið SR í vetur. Inga Rakel Aradóttir, Ragnhildur Kjartansdóttir og Gunnborg Petra Jóhannsdóttir. Mynd: skautafelag.is.

Laugardagur 14. september kl. 16:45 í Egilshöllinni í Grafarvogi
FJÖLNIR - SA


Síðast þegar Herborg Rut Geirsdóttir spilaði fyrir SA, tímabilið 2022-23, var hún fyrirliði og hampaði Íslandsbikarnum. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Komnar

  • Herborg Rut Geirsdóttir frá Rögle BK í Svíþjóð

Farnar

  • María Eiríksdóttir til Karlskrona HK í Svíþjóð
  • Ragnhildur Kjartansdóttir í SR


Deildarmeistarar SA 2023-24. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.


Leikmannalisti SA liðsins fyrir leikinn gegn Fjölni í dag. Skjáskot af ihi.is.

Fyrstu leikir

Fjölnir (ú)
SR (h)
Fjölnir (h)
SR (ú)
SR (h)

Nýr þjálfari og Ingvar Þór inn í teymið hjá SA Víkingum

Karlalið Skautafélags Akureyrar, SA Víkingar, hefur einnig leik á Íslandsmótinu í íshokkí í dag. Þeir mæta Fjölni í Egilshöllinni að leik loknum hjá konunum, eða kl. 19:30. Liðið hefur fengið nýjan þjálfara, Sheldon Reasbeck, eins og fram hefur komið. Hann hefur fengið til liðs við sig í þjálfarateymið einn reyndasta og sigursælasta hokkíleikmann landsins, landsliðsfyrirliðann Ingvar Þór Jónsson. Hann mun án efa nýtast liðinu vel enda kemur hann með ómetanlega reynslu bæði sem leikmaður og þjálfari inn í teymið. 


Deildarmeistarar 2023-24, SA Víkingar. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.

Það verður áhugavert að fylgjast með þróun mála á Íslandsmóti karla, Hertz-deildinni, í vetur. SA Víkingar hafa nú í tvígang mátt sjá á eftir Íslandsbikarnum suður og í bæði skiptin var það SR sem vann titilinn í Skautahöllinni á Akureyri. Skautafélag Akureyrar hefur verið sigursælt á Íslandsmótinu í karlaflokki í gegnum tíðina, en endrum og sinnum hafa sunnanliðin náð að vinna Íslandsmeistaratitilinn. SA Víkingar urðu deildarmeistarar í fyrra með nokkrum yfirburðum, en misstu af Íslandsmeistaratitlinum eftir tap í oddaleik.

Annað atriði sem mun vonandi gera deildina áhugaverðari er tilkoma fjórða liðsins. Skautafélag Hafnarfjarðar (SFH) var stofnað á dögunum og hefur lagt metnað í að senda lið til leiks á Íslandsmóti karla. Fyrsti leikur SA Víkinga gegn Hafnfirðingum verður þó ekki fyrr en í nóvember.

Laugardagur 14. september kl. 19:30 í Egilshöllinni í Grafarvogi
FJÖLNIR - SA VÍKINGAR


SA Víkingar hafa fengið til liðs við sig tvo erlenda leikmenn, markvörðinn Tyler Szturm og sóknarmanninn Marek Vybostok. Myndir: SA.

Komnir

  • Ólafur Björgvinsson frá Svíþjóð
  • Tyler Szturm frá Kanada
  • Marek Vybostok frá Slóvakíu

Farnir

  • Arnar Kristjánsson til ungmennaliðs EJ Kassel í Þýskalandi
  • Jakob Ernfelt Jóhannesson


Liðsskipan SA Víkinga í leiknum gegn Fjölni í kvöld. Skjáskot af ihi.is.

Fyrstu leikir

Fjölnir (ú)
SR (h)
SR (ú)
Fjölnir (ú)
SR (h)