Krónuverslun opnuð á Akureyri haustið 2022
Krónan mun opna verslun á Akureyri haustið 2022. Það hefur lengi staðið til, tafist af ýmsum ástæðum en eftir að síðustu hindruninni var nýlega rutt úr vegi er ljóst að framkvæmdir vegna byggingar verslunarhúss hefjast fljótlega.
Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir hönnun hússins á lokastigi og þegar hafist verði handa verði allt kapp lagt á að verkið gangi hratt og vel. Verslunarhúsið verður rúmir 2.000 fermetrar að sögn Ástu Sigríðar. Verkið verður boðið út og „að sjálfsögðu“ leitað til heimamanna, eins og hún orðaði það í samtali við Akureyri.net.
„Jarðvegsvinna á að hefjast um leið og frost fer úr jörðu,“ segir Ásta Sigríður. „Við erum gríðarlega spennt að fá að opna Krónuverslun á Akureyri, og ég vona að bæjarbúar og nærsveitamenn séu það líka. Við hlökkum til að eignast fleiri Krónuvini fyrir norðan.“
Braggar og vörugeymsla rifin
Fyrrverandi eigandi Krónunnar keypti lóð við Glerárgötu fyrir hálfum öðrum áratug í því skyni að reisa þar verslunarhúsnæði. Austast á lóðinni, á horni Tryggvabrautar og Hvannavalla, eru tveir braggar og vörugeymsla; þar mun verslun Krónunnar einmitt rísa og eftir að skipulagsyfirvöld á Akureyri heimiluðu á dögunum niðurrif umræddra bygginga er ekki eftir neinu að bíða. Þær eru í eigu fasteignafélags Festi og félagið sér um að rífa byggingarnar. Festi er móðurfélag Krónunnar, einnig m.a. Elko og N1.
Verslanir Krónunnar eru flestar stórar og rúmgóðar. „Við leggjum mikið upp úr því að upplifun viðskiptavina okkar sé ánægjuleg; ferskvaran og hollustan er í fyrirrúmi hjá okkur, ásamt breiðu vöruúrvali þar sem hægt er að gera mjög ódýr innkaup en líka aðeins dýrari með enn meiri gæðum og þannig tryggja að þú fáir allt sem þú þarft í einni ferð,“ segir framkvæmdastjórinn.
Snjallverslun
Verslunin á Akureyri mun opna fyrir Snjallverslun Krónunar, þar sem hægt er að panta matvöru í appi á símanum og fá hana senda heim eða sækja í verslun. Ásta Sigríður segir þetta hafa gefið góða raun og sé mjög vinsælt.
Krónan leggur mikið upp úr umhverfisvernd og er markmiðið að Krónuverslunin á Akureyri hljóti Svansvottun, líkt og allar aðrar verslanir Krónunnar hafa fengið, segir Ásta Sigríður. Svansvottun varðar þá samfélagslegu ábyrgð sem fyrirtækið leggur áherslu á og standi fyrir, en kröfur Svansins ná yfir umhverfisþætti í rekstrinum á borð við matarsóun og flokkun úrgangs, orkunotkun og framboð lífrænna og umhverfisvottaðra vara.
- Mynd að ofan: Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Lóðin eins og hún lítur út í dag. Krónuverslunin verður austast á lóðinni, á mótum Tryggvabrautar og Hvannavalla, þar sem braggarnir tveir og vörugeymslan eru nú. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.