Kristrún með opinn fund á Akureyri í dag
Kristrún Frostadóttir, þingmaður og formannsframbjóðandi í Samfylkingunni, hefur boðað til opins fundar í dag í Alþýðuhúsinu á Akureyri. Fundurinn verður í Lions-salnum á 4. hæð og hefst kl. 17:00.
Kristrún lagði land undir fót síðasta vetur og hélt 37 opna fundi með fólki í heimabyggð þess undir yfirskriftinni Samræða um framtíðina.
„Ég átti skemmtilegan og eftirminnilegan fund á Akureyri fyrir kosningarnar í fyrra. En í hringferðinni síðasta vetur lagði ég áherslu á að vera með opna fundi á fámennari stöðum, þar sem ég hafði ekki fundað áður. Þá þræddi ég Norðurlandið. Nú tek ég annan hring og í þetta sinn sem frambjóðandi til formanns í Samfylkingunni, jafnaðarmannaflokki Íslands. Þá fer maður auðvitað beint í höfuðstaðinn norðan heiða! Ég bind miklar vonir við fundinn í Alþýðuhúsinu í dag og býst við fjörugum umræðum,“ segir Kristrún í tilkynningu.
Fundurinn er opinn öllum og fyrirkomulagið verður afslappað. Kristrún flytur stutta framsögu og leitast síðan eftir samtali og ólíkum sjónarmiðum:
„Það kemur ekkert í staðinn fyrir beint samtal við fólk. Ég vil eiga opið samtal og svara spurningum. Og ég vil segja betur frá þeim hugmyndum sem ég setti fram í Iðnó um daginn þegar ég tilkynnti framboðið. Þær hafa greinilega vakið athygli víða. Ég vil að við jafnaðarmenn förum aftur í kjarnann og náum virkari tengingu við venjulegt fólk um land allt,“ segir Kristrún.
„Ég vona bara að sjái sem flesta í Alþýðuhúsinu kl. 17:00 á eftir, líka fólk sem er ekkert endilega alltaf á sömu línu og ég í pólitík!“