Kraftur í unga fólkinu í bæjarpólitíkinni
Árlegur bæjarstjórnarfundur unga fólksins var haldinn 16. apríl síðastliðinn í Ráðhúsinu. Þar gefst Ungmennaráði Akureyrarbæjar tækifæri til þess að funda með bæjarfulltrúum og koma málefnum unga fólksins á framfæri.
„Til þess að undirbúa sig fyrir fundinn, fóru krakkarnir á fund með nemendaráðum skólanna í bænum,“ segir Karen Nóadóttir, umsjónarmaður Ungmennaráðs. „Þau mættu því vel undirbúin með hugðarefni unga fólksins á svæðinu, og bæjarfulltrúarnir svöruðu hverju erindi fyrir sig. Ég var mjög ánægð með þau, en þau hikuðu ekki við að fara aftur í pontu og ítreka mál sitt ef þeim þótti svar fullorðna fólksins ekki fullnægja.“
Eitt af því sem var rætt, var að á fundum Ungmennaráðsins með nemendaráðum skólanna kom í ljós að nemendaráðin voru mörg hver ekki alveg með á hreinu hvert hlutverk þeirra væri. Það var Telma Ósk Þórhallsdóttir, meðlimur í Ungmennaráðinu sem vakti þá umræðu. „Aðalverkefni nemendaráðanna virtist vera að skipuleggja og halda utan um skemmtanir, en þau eiga líka að gæta hagsmuna nemenda skólans og vera rödd þeirra til skólastjórnenda,“ segir Karen. Jón Hjaltason bæjarfulltrúi tók undir ábendingar Telmu og lögð verður áhersla á að styrkja nemendaráðin.
Rætt var um úrgangsmál bæjarins, þar sem unga fólkið taldi að ýmislegt mætti betur fara. Einnig var rætt um að fá sparkvöll í Hrísey, krökkunum þar væri farið að lengja eftir velli, en það væri eini skóli sveitarfélagsins sem ekki væri með sparkvöll, fyrir utan Hlíðarskóla. Í fundargerðinni stendur að bæjarfulltrúinn Hlynur Jóhannson hafi bent á að sparkvellirnir hafi verið átaksverkefni KSÍ og það verkefni sé ekki lengur í gangi. Ungmennaráð brást við með því að vitna í 2. grein Barnasáttmálans, þar sem segir að öll börn skuli vera jöfn.
Ungmennaráð kallaði eftir aukinni fræðslu í skólum um hinseginleikann og meiri kynfræðslu. Heimir Örn Árnason bæjarfulltrúi brást við, tók heilshugar undir mikilvægi málsins og vakti athygli á því að samningur hefði nýlega verið undirritaður við Samtökin 78 um að sinna fræðslu í skólum sveitarfélagsins. Geðheilsa unga fólksins er Ungmennaráði ofarlega í huga, því einnig var rætt um að auka við sálfræðiþjónustu við ungt fólk og helst að fá sálfræðinga til starfa í skólunum.
Mörg mál voru á dagskrá og áhugasöm um baráttumál Ungmennaráðs geta bæði lesið fundargerðina og horft á fundinn HÉR.
„Ég ræddi við marga bæjarfulltrúa eftir fundinn,“ segir Karen Nóadóttir. „Flest sögðu að þetta hafi verið skemmtilegasti bæjarstjórnarfundur sem þau hafi setið lengi. Þau voru ánægð með krakkana og kunnu vel að meta hvað þau gengu fast fram í réttindagæslu ungs fólks í sveitarfélaginu.“