Krabbameinsfélagið fékk 5,7 milljónir
Kaupmennirnir Vilborg Jóhannsdóttir í Centro og Inga Vestmann í Pedromyndum afhentu Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis (KAON) 5,7 milljónir króna í dag. Féð safnaðist á Dekurdögum sem þær stóðu að í 15. skipti í nýliðnum októbermánuði. Á síðasta ári rufu þær Inga og Vilborg 5 milljóna múrinn í fyrsta skipti og söfnuðu meira í ár en nokkru sinni.
Féð var afhent á samkomu Krabbameinsfélagsins í menningarhúsinu Hofi þar sem félagið lokaði bleikum október. Fram fór kynning á félaginu, þá var flutt erindið Sjálfsmildi - sjálfsrækt, þar sem fjallað var um heilsu og vellíðan, mikilvægi þess að sýna sjálfum sér sjálfsmildi og hlúa að sér.
Að því búnu afhentu Inga og Vilborg ágóða söfnunar Dekurdaga og samkomunni lauk með því að fjölmiðlakonan kunna, Sirrý Arnardóttir, flutti erindið Góð samskipti.
Vilborg Jóhannsdóttir sagði, þegar þær Inga afhentu féð í dag, að Dekurdagar hefðu tekist einstaklega vel í ár. Markmiðið væri að glæða bæinn lífi til styrktar góðu málefni – að styðja við Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis. Aðal verkefnið, Slaufur í staur, stækkaði sífellt og í ár hefðu verið bundnar 800 slaufur. Hún sagði bæjarbúa og gesti hafa tekið mikinn þátt í ýmsum viðburðum víða um bæinn, þakkaði einnig Lionsklúbbum víða í firðinum og fyrirtækjum, sem mörg hver hefðu verið með í fjölda ára og greitt þátttökugjöld. Framlög og styrkir hafa aldrei verið fleiri, sagði Vilborg; allt frá 3.000 krónum og upp í hálfa milljón.
Glæða bæinn lífi til styrktar góðu málefni
Samkomunni í Hofi lauk með því að fjölmiðlakonan og kennarinn Sirrý Arnardóttir flutti erindið „Góð samskipti“.