„Konfektið“ féll í góðan jarðveg – MYNDIR
Bekkurinn var þétt setinn í Glerárkirkju á laugardagskvöldið þegar nýárstónleikar Hljómsveitar Akureyrar fóru fram, Klassískt nýárskonfekt, eins og þeir voru kallaðir. Ókeypis var inn en tónleikagestir hvattir til að láta eitthvað af hendi rakna til styrktar Grófinni – Geðrækt og sú áskorun náði eyrum þeirra ekki síður en tónlistin. Alls söfnuðust 500 þúsund krónur sem afhentar verða Grófinni í vikunni.
Tónleikarnir voru eins vel heppnaðir og stjórnandi hljómsveitarinnar, Michael Jón Clarke, leyfði sér að vona á bjartsýnustu stundum, eins og hann orðar það. Hljóðfæraleikararnir í Hjlómsveit Akureyrar er áhugafólk sem tekur þátt í verkefnum í sjálfboðavinnu. Einleikararnir að þessu sinni voru tveir, tannlæknir og prófessor í Háskólanum á Akureyri, eins og Michael sagði frá í viðtali við Akureyri.net fyrir helgina.
„Hljómsveitarmeðlimir koma úr öllum áttum! Við erum með kvensjúkdómalækni, flugstjóra, lögfræðing og alls konar starfsstéttir koma hérna saman. Því er að fjölga, þessu fólki sem hefur tónlistina sem aðaláhugamál og æfir metnaðarfull verk samhliða annarri vinnu,“ sagði hann.
Þorgeir Baldursson var með myndavélina í Glerárkirkju
Gísli Rúnar Víðisson, einn einsöngvaranna á tónleikunum.
Helga Margrét Clarke, annar einsöngvari, heiðraði minningu djassdrottningarinnar Ellu Fitzgerald á tónleikunum.
Guðrún Ösp Sævarsdóttir, þriðji einsöngvarinn með Hljómsveit Akureyrar á laugardagskvöldið, alsæl á tali við tónleikagesti að samkomunni lokinni.
Píanóleikarinn Alexander Smári Kristjánsson lék Elvira Madigan, kafla úr einum píanókonserta Mozarts.
Michael Jón Clarke stjórnandi Hljómsveitar Akureyrar.
Atli Sigurðsson hornleikari.
Kristján Edelstein einbeittur með gítarinn.
Eyþór Ingi Jónsson organisti.