Fara í efni
Fréttir

Klæðning vegar hlóðst utan um bíldekkin

Mynd af Vísi: Haraldur Sigurðarson

Ökumaður missti stjórn á bílnum sínum þegar hann ók um Öxnadal að kvöldi síðasta þriðjudags. Klæðning á veginum húðaðist utan um dekk bílsins, að því er fram kemur á fréttavefnum Vísi í gær. Ökumaðurinn segir veginn á svæðinu oft vera í ansi slæmu standi.

Haraldur Sigurðarson var á leið frá Reykjavík til Akureyrar og lýsir mjög slæmu ástandi vegarins, sem var verst á milli Engimýrar og Þverár. Kort er af svæðinu í frétt Vísis.

Þar sem ástandið var verst tók klæðningin snögglega að hlaðast utan um dekkin. „Malbikið bara flettist upp. Húðast utan um dekkin hjá mér og þetta slettist í allar áttir. Það brotna innri brettin á bílnum. Ég missi stjórn á bílnum af því að eiginleikar dekkjanna hurfu. Ég hafði enga stýringu, það var eins og ég væri á búðarkerru,“ segir Haraldur við Vísi.

Haraldur náði að halda sér á veginum en segir bílinn óökuhæfan eftir atvikið.

Frétt Vísis: Missti stjórn á bílnum þegar klæðingin umvafði dekkin