Fara í efni
Fréttir

Kjöraðstæður fyrir mikla skoteldamengun

Frostþoka lá yfir Pollinum í morgun enda mjög kalt á Akureyri og áfram verður kalt í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyringar og gestir þeirra mega búast við mikilli mengun af völdum skotelda í kvöld og nótt. Spáð er miklum kulda og kyrru veðri þegar líður á daginn og fram á nótt. Varasamt gæti orðið fyrir fólk með öndunarfærasjúkdóma eða hjarta- og æðasjúkdóma, börn og aldraða að vera útivið þegar líður á kvöldið og fram á nóttina.

Spá Veðurstofu Íslands fyrir Norðurland eystra gerir ráð fyrir hægri breytilegri átt, 3-10 metrum á sekúndu, dálitlum éljum í dag, en hægari vindi og að í kvöld rofi til. Á morgun verður vestanátt, 3-8 m/sek. og stöku él síðdegis. Frostið verður 9-21 stig, kaldast í innsveitum. 

Að venju má búast við því að mikið magn skotelda verði notað um allan bæ þegar líður á kvöldið og um og upp úr miðnættinu. Viðbúið er að þá muni mengunartölur rjúka upp, en hægt er að fylgjast með þróuninni á vefnum loftgaedi.is fyrir einn stað á Akureyri, úr mengunarmæli Akureyrarbæjar og Umhverfisstofnunar sem staðsettur er við Strandgötuna gegnt Hofi. 

Á veðurvef Einars Sveinbjörnssonar, blika.is, má meðal annars sjá þessa sjálfvirku spá fyrir veðurstöðina við Krossanesbraut í dag og næstu daga. 

Svifrykið svífur lengi í stilltu veðri

Á vef Umhverfisstofnunar má meðal annars finna upplýsingar um mengun af völdum flugelda. Þar kemur meðal annars fram að aldraðir, börn og fólk með undirliggjandi öndunarfæra- og hjarta- og æðasjúkdóma. „Áhrifin koma fram sem versnandi einkenni sjúkdóma og þannig má sjá aukna tíðni á komum á bráðamóttökur,“ segir þar. Meðal annars lendir fólk í andnauð og innlögnum á sjúkrahús fjölgar. Einnig má greina aukna dánartíðni í kjölfar útsetningar við svifryk, að því er fram kemur á vef Umhverfisstofnunar.  

Mengun af völdum skotelda er óumdeild, en veður er ráðandi þáttur í því hvort mengunin safnast upp eða fýkur út í veður og vind, svo að segja. Í stilltu veðri og úrkomulausu geta loftgæði orðið mjög lítil.

Í því sambandi má meðal annars rifja upp áramótin 2016-17 og 2017-18, en í bæði skiptin var úrkomulaust og stillt veður í Reykjavík, en búast má við svipuðum veðuraðstæðum á Akureyri í kvöld. Svifrykið sem myndaðist frá skoteldum á áðurnefndum áramótum í höfuðborginni náði að svífa lengi um andrúmsloftið. Klukkustundarstyrkur svifryks fór yfir 2.000 µg/m3 (míkrógrömm á rúmmetra) eftir miðnætti árið 2017 og yfir 3.500 µg/m3 árið 2018. Heilsuverndarmörk fyrir hvern sólarhring eru 50 µg/m3.

 

Á vef Umhverfisstofnunar er Íslandskort þar sem loftgæði eru merkt með litum. Á þessari mynd, sem einnig er af vef stofnunarinnar, má sjá hvað litirnir tákna: