Fara í efni
Fréttir

Kjarasamningi við einn stærsta hópinn útvistað

Björn Valur Gíslason, skipstjóri og fyrrverandi alþingismaður, segir að skilja megi þau rök sem liggja að baki því að sveitarfélög vilji ekki semja beint við starfsfólk sitt og að þau kjósi að vera í samfloti með öðrum sveitarfélögum á þeim vettvangi. Þar vísar hann til kjaradeilu Kennarasambands Íslands við ríki og sveitarfélög.

„En það má líka setja spurningarmerki við það hvort of langt sé gengið hjá stóru sveitarfélagi eins og Akureyrarbæ að afsala sér allri ákvarðanatöku í svo stóru máli og víkja sér þannig beinlínis undan afskiptum um svo mikilvægan þátt í skólastarfi sem kjör og starfsumhverfi kennara og nemenda eru hverju sinni,“ segir Björn Valur í grein sem birtist á akureyri.net í dag.

Akureyrarbær vakti nýverið athygli á því á heimasíðu sinni að bæjarfulltrúum og stjórnendum, væri óheimilt að hlutast með nokkrum hætti til um kjarasamninga við kennara, skv. samningi við Samband íslenskra sveitarfélaga.

„Það getur auðvitað verið erfitt fyrir bæjarfulltrúa að semja beint við starfsfólk bæjarins, augliti til auglitis, en það á líka við um margt annað sem þeir hafa boðið sig fram til að gera,“ segir Björn Valur. „Það má sömuleiðis færa fyrir því rök að þá sé mikill undansláttur af hálfu bæjarfulltrúa að vísa gerð kjarasamninga algjörlega frá sér og þá þannig að þeir skuldbindi sig til að hafa engin afskipti af gerð kjarasamninga við starfsfólk bæjarins og hlíta frekar skilyrðislaust niðurstöðu þriðja aðila.“

Björn Valur segir einnig:

„Ég efast ekki um að bænum sé heimilt að útvista gerð kjarasamninga til Sambands íslenskra sveitarfélaga en slík ákvörðunartaka þarf að mínu mati að vera gagnsæ, vel rökstudd og tekin fyrst og síðast með hagsmuni starfsfólks bæjarins í huga, kennara í þessu tilfelli og velferð nemenda sömuleiðis. Það færi vel á því að bæjarfulltrúar ræddu það í alvöru að létta á skuldbindingum sínum við Samband íslenskra sveitarfélaga varðandi gerð kjarasamninga og opnuðu þannig fyrir að geta gert betur við starfsfólk sitt en önnur sveitarfélög gera. Það er örugglega svigrúm til þess á ýmsum sviðum.“

Grein Björns Vals: Útvistun kjarasamninga